fimmtudagur 09.06.2022

Hvernig er sumarmarkaðurinn?

Er gott að selja á sumrin?

Sumrin eru yfirleitt frábær tími til að selja fasteign og yfirleitt er mest að gera hjá mér á sumrin. Það er samt ennþá mikilvægara að undirbúa eignina vel fyrir sölu þar sem með hækkandi sól sést allt betur. Það þarf því að taka vel til fyrir utan hús þannig að eignin taki vel á móti væntanlegum kaupendum og þrífa vel að utan sem innan því blessað rykið sést aldrei betur en þegar sólin skín á það. 

Verðin eru ennþá há

Verðin eru ennþá í hæstu hæðum þrátt fyrir stýrivaxtahækkanir Seðlabanka. Við erum hins vegar að sjá fyrstu teikn á lofti að færri kaupendur ráða við að kaupa þar sem greiðslubyrði á lánum hefur hækkað og þeir fá ekki lánafyrirgreiðslu á eins háu láni og þeir fengu fyrir vaxtahækkanir.  Stór og dýr hús eru alltaf síðust til að hækka og fyrst til að gefa eftir í verði.

Margir vilja flytja fyrir haustið

Barnafjölskyldur sem eru með börn á grunnskólaaldri leitast við að flytja á 3 árstímum. Strax eftir jól, á vorin eftir að skóla líkur og á haustin áður en skóli byrjar. Langflestir vilja vera fluttir í nýtt heimili fyrir skólabyrjun þannig að krakkarnir byrji í nýjum bekk að hausti. Það er einnig þægilegt að geta nýtt sumarfrííð í að standsetja nýju eignina og gefið sér tíma í að pakka niður og flyta í ró og næði í staðinn fyrir að gera það samhliða jólastressinu eða á kvöldin og um helgar.

Húsin skarta sínu besta

Sumarið er einfaldlega besti tíminn til að selja og kaupa sérbýli, sérstaklega ef það er sólríkt sumar. Stór hús með fallegum garði njóta sín best á sumrin. Það er auðvelt að sjá sig á pallinum grilla á meðan krakkarnir hoppa og skoppa á trampólíninu. Geta labbað um í garðinum í staðinn fyrir að reyna að sjá hann fyrir sér undir snjóskafi. Hverfin eru lifandi og það er notalegt að sjá krakkana úti að leika.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur