fimmtudagur 24.11.2022

Hugmyndir fyrir aðventuna

Nú þegar fyrsti í aðventu rennur upp á sunnudaginn er ekki seinna vænna að huga að jólaskreytingunum. Heldur þú í gamlar góðar hefðir og skreytir allt í grænu og rauðu eða finnst þér gaman að breyta til og blanda saman gömlu heimatilbúnum skreytingum frá krökkunum við nýmóðins viðar og kopar muni? Hvort sem á meira við þig, þá er tíminn núna að taka upp úr jólakössunum og gera huggulegt í kringum sig fyrir komandi desember mánuð. Hér eru nokkrar hugmyndir til þess að komast í jólagírinn!

Rautt og grænt

Þessar hefðbundnu grænu og rauðu skreytingar eru alltaf tímalausar, enda koma þessir litir gjarnan strax upp í hugann þegar hugsað er um jólin. Með því að setja upp nokkra rauða jólasokka hér og þar eða grænar jólakúlur og kransa verður rýmið strax jólalegt. Á mörgum heimilum er hefðin sú að setja upp jólatréð á þorláksmessu en ef þú vilt fá jólaandann yfir þig sem fyrst ekki hika við að setja upp jólatréð á fyrsta í aðventu og leyfðu því að njóta sín lengur. 

Silfur og gull

Glamúr, glitrandi gull og silfur gerir allt meira töfrandi. Einnig hefur kopar komið sterkt inn þetta árið og það fer vel saman við dökkgræna grenið. Svo endurspeglast kertaljósin og jólaljósin svo fallega með. Minimalískir vasar með alls konar trjágreinum og stráum hafa verið vinsælir í ár og er til dæmis hægt að poppa skreytinguna upp með því að spreyja eina greinina í silfri eða gulli á móti. 

Gamlar hefðir

Til þess að halda í nostalgíuna er alltaf hægt að grípa til gamallra góðra hefða. Jólakransar á útidyrahurðinni setja ákveðin jólabrag á eignina þína og er hægt að nýta afgangs greni til að setja í vasa innandyra eða útbúa annan lítin krans og hengja upp í stofunni. Grenið gefur svo góða jólalykt. Og talandi um jólalykt að að þá er klassískt að stinga kanilnöglum í mandarínur. Að lokum er Hýasinta eitt helsta jólablómið og gefur af sér guðdómlegan jólailm.


Aðrar færslur