fimmtudagur 23.11.2023

Er gott að hafa lágan hússjóð?

Hússjóðir eru eins mismunandi og eignir eru margar. Oft eru starfandi mörg húsfélög innan saman hússins. Það getur verið húsfélag fyrir stigaganginn, lóðina, bílskýlið og heildarhúsið. Mjög algengt er að stigagangurinn rukki heildarhúsgjaldið og svo rennur hluti af húsgjaldinu inn í framkvæmdasjóðinn sem stóra húsfélagið heldur utan um.

Margir kaupendur skoða hússjóðsgjaldið sem þarf að greiða og finnst galli hvað það er hátt. Það sem ég myndi mæla með að skoða væri miklu frekar hvað er til í framkvæmdasjóð og húsfélaginu og hvers vegna er hann hár. Er hann hár af því að það er íþyngjandi rekstrarkostnaður í húsinu, s.s. lyfta, húsvörður og bílskýli eða er hann hár af því að það er verið að safna fyrir væntanlegum framkvæmdum eða jafnvel framtíðarframkvæmdum. 

Ég hef talað við marga sem borga hærri húsgjöld og það sem þeir eiga sammerkt er að þeir þurfa sjaldan eða jafnvel aldrei að borga í framkvæmdum sem farið er í. Það getur verið mjög íþyngjandi að þurfa að greiða eina til tvær milljónir í framkvæmdir ári eftir að þú flytur inn. Hins vegar finnur þú mun minna fyrir því ef þú borgar aukalega 10-15.000 á mánuði í framkvæmdasjóð.

Að vera með tóman framkvæmdasjóð getur rýrt verðmæti eignarinnar sérstaklega ef það er vitað að það séu dýrar framkvæmdir framundan. Ef kaupandinn veit að hann mun þurfa að greiða 5.000.000 í utanhússframkvæmdir á næstu 3 árum þá er mjög líklegt að hann vilji lækka eignina sem því nemur. Ef það eru hins vegar til nokkrar milljónir í framkvæmdasjóð og verið að safna fyrir væntanlegum framkvæmdum er íbúðin mun seljanlegri og eigandinn líklegri til að fá hærra verð.

Inneign í hússjóði fylgir alltaf sölu eignarinnar en skuldir þarf að gera upp við sölu rétt eins og aðrar skuldir sem tilheyra seljanda.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur