Oft þegar við erum með keðjur eða að seljendur eiga eftir að finna sér eign þá er sett inn eignin er afhent eigi síðar en X dagsetningu. Ef við setjum t.d. eigi síðar 15. september 2024 og í dag væri 15. júní 2024 þá þýðir það að einhvern tímann á þessu 3ja mánaða tímabili verður íbúðin afhent og afhendingar dagsetningin er síðan háð því að það gangi fyrir báða aðila.
Það er mikilvægt að láta fasteignasalann vita um endanlegan afhendingardag þar sem kaupandinn byrjar að greiða af eigninni daginn sem hann fær afhent. Það eru fasteignagjöld, fráveitugjöld, brunatrygging og húsgjöld sem þarf að reikna upp. Ef kaupandinn yfirtekur áhvílandi lán þá þarf að reikna hvað hann átti að greiða og sama gildir ef húsaleigusamningur er yfirtekinn.
Einnig þarf að passa að senda inn álestur af hita og rafmagni á raunverulegum afhendingardegi. Ef það eiga að fara fram greiðslur á afhendingardegi þá ber að greiða þær á raunverulegum afhendingardegi nema um annað sé samið.
Mjög mikilvægt er að ræða dagsetningu afsals, hvort að hún breytist í samræmi við afhendingardag, t.d. 2 mánuðum eftir afhendingu eða hvort að hún sé föst t.d. 15. nóvember. Það er lykilatriði að ræða þessi atriði áður en loka afhending kemur þar sem þetta getur orðið leiðinlegur ágreiningur í lokaferlinu.
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402