fimmtudagur 04.01.2024

Geta margir boðið í sömu eignina?

Það mega allir kaupendur gera tilboð í sömu eignina. Þegar mestu lætin voru á fasteignamarkaðnum var ekkert óalgengt að fá 5-10 tilboð í sömu eignina. Það er mikilvægt að átta sig á því að það má bjóða í eign þó að einhver annar sé búinn að bjóða. Það er algengur misskilningur hjá fyrstu kaupendum að þeir verði að bíða og sjá hvað kemur út úr tilboðinu sem er í gangi og gera þá tilboð ef hún selst ekki.

Svo eru sumir sem vilja ekki gera tilboð nema eitthvað annað tilboð sé í gangi. Ég heyri ótrúlega oft. ,,Mér líst svakalega vel á þessa eign, ég ætla aðeins að hugsa þetta. Láttu mig vita ef það kemur tilboð". Þessi setning getur hæglega kostað þig 1-2 milljónir þar sem ef það eru fleiri tilboð komin og þig langar í eignina þá þarftu að yfirbjóða hin tilboðin nú eða vera með besta boðið s.s. fyrirvaralaust tilboð.

Ég myndi alltaf mæla með að ef þú ert búinn að finna draumaeignina að gera tilboð í hana, sérstaklega ef enginn annar er að bjóða á móti þér. Hvað með gagntilboð? Má seljandinn gera mörgum kaupendum gagntilboð í einu?Nei, seljandinn má bara gera eitt gagntilboð þar sem ef hann gerir fleiri en eitt gagntilboð og allir aðilar samþykkja sitt tilboð þá er seljandinn búinn að selja nokkrum aðilum sömu eignina og það er kolólöglegt.

Þess vegna er oft gífurlega stressandi að fá fleiri en eitt tilboð þar sem seljandinn þarf að meta hvaða tilboð er líklegast til að fara í gegn. Ef það koma t.d. 3 tilboð og öll meðfyrirvara um fjármögnun og sölu á eign kaupanda þá skiptir ekki alltaf hæstaverðið máli. Það þarf líka að meta hversu söluleg eign kaupanda er og hvort að hún sé líklegri en hinar til að verða síðasta eignin í keðjunni þannig að 2jaherbergja íbúð er alltaf fýsilegri kostur en raðhús.

Hversu mörg tilboð má sami kaupandinn gera? Ef fyrsta tilboðinu er ekki tekið og seljandinn gerir gagntilboð þá má kaupandinn gera gagntilboð til baka. Það er ekkert hámark á því hversu oft má gera gagntilboð fram og til baka. Lykilatriði er að þegar seljandinn gerir gagntilboð þá verður hann að velja einn kaupanda til að gera gagntilboð á en þegar kaupandi gerir gagntilboð þá geta aðrir kaupendur gert tilboð á sama tíma.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur