Ég fékk spurningu um daginn hvers vegna fasteignasalar taki ekki út “seldar” eignir, þ.e. eignir sem eru stimplaðar seldar og yfirleitt með texta. Eignin er seld og er í fjármögnunarferli.
Það er einföld skýring á því. Eign er í raun ekki seld fyrr en búið er að halda kaupsamning. Á meðan kaupandinn er að leysa úr fyrirvörum þá er hann ekki tilbúinn í kaupsamning. Helstu fyrirvarar eru fyrirvari um fjármögnun og fyrirvari um sölu á eign kaupanda. Ef kaupandinn nær ekki fjármögnun og/eða nær ekki að selja sína eign innan frestsins þá fellur tilboðið og eignin fer aftur á sölu.
Margir fasteignasalar, þ.á.m. ég hafa því farið þá leið að stimpla eignina selda en láta vita að hún sé í raun ekki fullfrágengin. Þá geta áhugasamir kaupendur látið vita að þeir myndu vilja fá að vita ef kaupin ganga ekki í gegn. Þá eru þeir fyrstir til að frétta ef kaupandinn náði ekki að klára og seljandinn þarf mögulega ekki að fara í gegnum allt ferlið aftur með tilheyrandi stússi eins og að taka til fyrir opið hús.
Þannig að ef þú misstir af eign eða sérð draumaeignina merkta SELD þá getur borgað sig að senda línu á fasteignasalann og láta vita að þú hafir áhuga á því að heyra ef hún kemur aftur í sölu.
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402