fimmtudagur 07.03.2024

Hvers vegna er eign stimpluð SELD?

Ég fæ oft spurningu hvers vegna fasteignasalar stimpla eignina selda. Hvers vegna er hún ekki bara tekin út af fasteignavefjum?Málið er einfalt. Eign er ekki seld fyrr en búið er að halda kaupsamning.

Í raun er hún bara frátekin fyrir ákveðin aðila í ákveðin tíma á meðan hann leysir úr sínum fyrirvörum. Ef það tekst ekki þá þarf að fara með eignina aftur í sölumeðferð og þá eru oft aðilar sem bíða eftir að fá að skoða hana. Það er ansi algengt að fólk missir af eigninni í fyrstu umferð og biður um að við látum það vita ef eignin kemur aftur á skrá. Þarna getum við sparað seljandanum hellings tíma að þurfa ekki að byrja söluferlið upp á nýtt.

Hvað þýðir þá 22 kaupendur á skrá? Þetta er fjöldinn sem sýndi eigninni áhuga á meðan hún var í söluferli. Þetta geta verið aðilar sem sóttu söluyfirlit, skoðuðu eignina og jafnvel gerðu tilboð í hana og fengu ekki. Þetta þýðir ekki að það séu 22 aðilar á skrá sem bíða eftir því að sölukeðjan slitni heldur að það séu 22 aðilar á skrá sem eru að leita eftirsambærilegi eign og þessari.

Mjög algengt er að ef þetta er sérbýli þá eru margir sem eiga minni eign í hverfinu og myndu vilja makaskipti og það er ótrúlega algengt að við púslum saman makaskiptum án þess að þessar eignir komi nokkrum tímann á netið. Það getur því borgað sig ef þú átt sérbýli og sérð að sambærilegt hús seldist að heyra í þeim fasteignasala sem var að selja viðkomandi eign og kanna hvort að hann sé með kaupendur á skrá sem gætu viljað skipti á þinni eign.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu áasdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur