fimmtudagur 30.11.2023

Hvað er fyrirvaralaust tilboð?

Núna erum við á kaupandamarkaði og það þýðir að það er hægt að gera mjög góð kaup ef þú ert með fyrirvaralaust tilboð.

Hvað er fyrirvaralaust tilboð? Það þýðir að þú gerir ekki fyrirvara um neitt nema ástandsskoðun. 

Þú átt ekki eftir að selja.

Þú átt ekki eftir að fara í greiðslumat.

Það er mjög algengt að fólk vilji alls ekki selja áður en það er búið að kaupa. Seljendur eru hins vegar mjög óspenntir fyrir því að taka við tilboði með fyrirvara um sölu og greiðslumat og það þýðir yfirleitt að þú verður að borga hærra verð til að tryggja þér draumaeignina. Seljendur taka yfirleitt alltaf öruggasta kostinn og ef þú ert að bjóða í eign á móti öðrum sem er ekki með fyrirvara þá taka þeir alltaf fyrirvaralausa tilboðinu jafnvel þó það sé 2-3 milljónum lægra einfaldlega vegna þess að það er öruggara. 

Það er algengur misskilningur að fólk geti bæði verið á kaupenda- og seljendamarkaði á sama tíma. Margir seljendur eru sannfærðir um að þeirra eign sé svo söluleg og frábær að lögmál markaðins eigi ekki við um þau og þess vegna geti þau boðið niður eignina sem þau eru að kaupa og á sama tíma fengið yfirverð fyrir sína. Það er yfirleitt ekki að virka. Ef þú vilt selja á 30 dögum eða skemur til að uppfylla þínar skyldur við þinn seljanda þá verður þú að fara í rétt markaðsverð eða jafnvel undir til að fá fleiri til að skoða eigina þína og auka þannig líkurnar á því að keðjan gangi upp.

Í hverjum mánuði sjáum við fleiri eignir koma inn á markaðinn. Það þýðir að ef þú átt eftir að kaupa eru minni líkur á því að þú finnir ekki drauma eignina innan frestins. Það eru auðvitað alltaf undantekingar á þessu, t.d. ef þú þarft 4 svefnherbergi í ákveðnu skólahverfi þá gæti það reynst erfitt. Þá er hins vegar lykilatriði að vera tilbúinn. Vera búin að fá greiðslumat og vera komin með þína eign í forsölumeðferð hjá fasteignasala þannig að þegar þú gerir tilboð í eign með fyrirvara um sölu þá er hægt að senda afrit af greiðslumatinu sem og söluyfirlit og myndir þannig að seljandinn og hans fasteignasali geti metið hversu söluleg þín eign er í raun og veru og hversu raunhæft verðið er.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur