fimmtudagur 25.04.2024

Hvers vegna taka fasteignasalar ekki tímagjald?

Ég fékk þessa spurningu um daginn, svona eins og lögfræðingar. Ég sagði á móti að lögfræðingar senda venjulega út reikninga mánaðarlega og rukka fyrir alla sína vinnu algjörlega óháð því hvaða árangri þeir ná.

Þessi útfærsla myndi þýða að seljendur fengju reikning einu sinni í mánuði. Það yrði að rukka fyrir hvert einasta símtal sem við fáum vegna eignarinnar, hvern einasta email sem við svörum. Hver sýning og hvert opna hús yrði rukkað sem og allur útlagður kostnaður yrði greiddur jafnt og þétt en ekki í lokin.

Líklega myndu þeir sem eiga stór og dýr hús koma best út en aðilar sem eru með litlar eignir myndu líklega borga meira þegar upp er staðið. Ég hef ekki ennþá hitt seljanda sem vill greiða kostnað mánaðarlega og hreinlega ekki hitt neinn sem vill greiða tímagjald þar sem í flestum tilfellum yrði þetta dýrara.

Þegar ég tek eign í sölu sem er í Gullpakkanum er alltaf búið að leggja út hundruði þúsunda í kostnað í upphafi. Það er búið að halda verðmats fund, sækja gögnin, panta stílista, ljósmyndara, skrá eignina á netið og setja hana í samfélagsmiðlaherferð. Það er búið að halda opið hús og mögulega mættu 15 manns sem tekur nokkra klukkutíma að fylgja eftir. Það koma 5 tilboð og þá yrði rukkað fyrir hvert tilboð, t.d. vinnuna við að kynna tilboðið og fara yfir það.

Ákveði seljandinn síðan að taka eignina úr sölu þá er hann búinn að greiða mjög háa þóknun í gegnum allt ferlið. Þannig að ég á erfitt með að sjá hvernig seljendur kæmu betur út úr því að það yrði rukkað tímagjald.

Ef þessi leið yrði farin þá þyrfti væntanlega líka að rukka kaupendur fyrir hvert einasta tilboð sem þeir gera þar sem það væri óeðlilegt að seljendur væru að greiða fyrir tilboð sem fara ekki í gegn þannig að kostnaðurinn fyrir kaupendur yrði einnig mjög íþyngjandi.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur