fimmtudagur 28.12.2023

Hvenær er eign seld?

Hvenær er eign seld? Er það þegar hún er komin með samþykkt tilboð? Þegar búið er að leysa úr öllum fyrirvörum eða þegar búið er að halda kaupsamning?

Þegar seljandi hefur samþykkt tilboð frá kaupanda þá má segja að eignin sé frátekin. Seljandinn má ekki taka við tilboðum frá öðrum ekki einu sinni þó að það kæmi umtalsvert betra tilboð daginn eftir.  Ef kaupandinn gerir tilboð með fyrirvörum þá kemur fram í tilboðinu hvers langan tíma hann hefur til að leysa úr fyrirvörum. Hefðbundinn fyrirvari um greiðslumat eru 2-3 vikur og á meðan kaupandinn er að vinna í sínum málum þá er eignin frátekin fyrir hann. Oft þarf kaupandinn lengri tíma og þá er það undir seljanda komið hvort að hann vilji veita frestinn eða ekki. Flestir seljendur veita frest þar sem það er minna umstang að bíða viku lengur eftir greiðslumat heldur en að þurfa að byrja allt söluferlið upp á nýtt. Hvað þá þegar búið er að leysa úr öllum fyrirvörum er eignin þá seld? Það er algengur misskilningur hjá kaupendum sem eru komnir með samþykkt tilboð að þeir séu búnir að selja íbúðina sína og geti því gert fyrirvaralaust tilboð. Stundum er bara búið að samþykkja tilboðið. Kaupandinn þeirra á jafnvel eftir að selja sína eign sem og að fá greiðslumat. Stundum eru margar eignir í keðju og það á eftir að selja síðustu eignina og halda 4-5 kaupsamninga. 

Eign er ekki seld fyrr en búið að er halda kaupsamning. Þá er viðkomandi seljandi orðinn klár sem fyrirvaralaus kaupandi og getur nýtt sér kaupandamarkað og jafnvel keypt eign á töluvert lægra verði en hann hefði getað gert ef hann hefði átt eftir að selja sína fasteign. 

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur