fimmtudagur 11.01.2024

Hvað er skilyrt veðleyfi?

Þegar kaupandi tekur nýtt lán og það er áhvílandi lán á eigninni sem hann er að kaupa þá þarf fasteignasalinn að gera plan með seljanda hvað á að gera við áhvílandi lán. Ef það á að borga þau upp þá þarf lánastofnun seljanda að veita lánastofnun kaupanda leyfi til að setja lánið á undan þeim með því að útbúa skilyrt veðleyfi.

Í því koma fram ýmsir skilmálar s.s. að fjármálastofnun seljanda veiti fjármálastofnun kaupanda leyfi til að veðsetja eignina á fyrsta veðrétt gegn því að fjármálastofnun kaupanda greiði upp áhvílandi lán og leggi svo eftirstöðvarnar inn á seljanda.

Þetta getur stundum verið ansi flókið sérstaklega ef það eru áhvílandi lán frá fleiri en einni lánastofnun þar sem þær þurfa allar að gefa skilyrt veðleyfi. Stundum hafa lánastofnanir kaupanda sett lánin á síðasta viðrétt með uppfærslu veðrétti gegn því að lán kaupanda verði nýtt til að greiða upp áhvílandi lán.

Ef seljandi ætlar að flytja áhvílandi lán getur málið orðið mjög flókið. Kaupandi er að kaupa fasteign A, á henni hvílir lán sem á að flytja á fasteign B. Á fasteign B hvílir lán sem á að flytja yfir á nýja eign seljanda sem hann er ekki búinn að festa sér ennþá. Lánið hans B þarf því að fara á svokallaðan handveðs reikning og bankinn hans tekur þá veð í bankabók í staðinn fyrir húsnæði. Peningarnir út úr láni kaupanda á eign A fara því áfram yfir á bankabókina.

Ef þú ert að selja og ert með lán sem þú ætlar að flytja með þér þá er mikilvægt að upplýsa fasteignasalann um það strax í byrjun ferilsins. Það getur tafið kaupsamningsgerð um margar vikur ef þetta kemur ekki í ljós þegar öll lánaskjöl hafa verið gefin út þar sem stundum þurfa bankar að endurútgefa lán með nýjum veðréttum til að planið gangi upp fyrir alla.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur