fimmtudagur 09.10.2025

Hvernig virkar slitasamningur?

Ég hef fengið mikið af spurningum hvernig útgöngusamningur eða slitasamningur virkar. Í raun er ekki til eitt rétt svar. Það er lykilatriði þegar ótengdir aðilar kaupa saman (allir nema par í raun) þá þarf að vera búið að teikna upp mismunandi útgönguleiðir ef annar vill selja en hinn ekki.

Algengt er að systkini kaupi saman eða börn og foreldrar og þá þurfa forsendurnar að liggja fyrir. Ef foreldrar eru að kaupa með börnum til að koma þeim inn á fasteignamarkaðinn og eru sátt við að hafa sitt eigið fé bundið í óskilgreindan tíma þá þarf ekkert að gera.

Hins vegar ef t.d. systkini kaupa saman þá þarf að huga að því hvað ef annar aðilinn (og stundum eru fleiri en 2 að kaupa saman) vill/þarf að selja.

Inn í slitasamning er hægt að setja hvað sem er. Það er hægt að tilgreina lágmarkstíma sem fólk á eignina saman. Skilyrða við hvaða markaðsaðstæður má selja og hvaða persónulegu aðstæður þarf að selja, s.s. annar hættir að borga af sínum lánum, flytur erlendis, fer í nám eða vill kaupa fasteign með nýjum maka.

Einnig er lykilatriði að tilgreina ef annar ákveður að kaupa hinn út hvernig er það gert, er það gert á markaðsvirði eða X hækkun á ári. Vilja aðilar hafa gagnkvæman forkaupsrétt?

Það geta komið upp gífurlega mikil leiðindi þegar annar aðilinn vill/þarf að selja en hinn vill það ekki. Annar er jafnvel fluttur til útlanda og hinn býr í eigninni sem hann á bara 50% í.

Ég persónulega myndi fá lögmann til að útbúa slitasamning þar sem það er best að hafa allt á hreinu áður en fasteign er keypt saman. Auðvitað eru til ýmis lagaleg úrræði til að fá aðila til að selja en þau eru dýr og geta valdið ævilöngum leiðindum milli aðila.

Þetta snýst um að annar aðilinn geti ekki haldið hinum í fjárhagslegri gíslingu ef aðstæður breytast.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggildur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is – 863 0402



Aðrar færslur