Söluyfirlit er grunnskjal í fasteignaviðskiptum. Á söluyfirliti eiga að koma allar upplýsingar sem skipta máli fyrir sölu á viðkomandi eign. Stærð eignar, byggingarefni, byggingarár, tegund eignar og ítarleg lýsing á eigninni án þess að vera með orðskrúð. Eignin verður að standast væntingar, upplýsingar um áhvílandi lán eiga að koma fram og kaupverð þó að margir setji fram tilboð sem má líka. Rekstrarkostnaður á eigninni, s.s. fasteignagjöld, fráveitugjöld og tryggingar og einnig upplýsingar um húsfélag.
Söluyfirlit á að endurspegla ástand eignar og það er því mjög mikilvægt að ofselja ekki eignina og í þessu tilfelli má segja að færri orð bera minni ábyrgð. Að lýsa eign sem algjörlega endurnýjaðri að utan sem innan getur t.d. skapað skaðabótaskyldu bæði fyrir seljanda og fasteignasala ef það er bara búið að hressa upp á gólfefni og mála veggi.
Það er lykilatriði fyrir kaupendur að söluyfirlitið sé vandað með öllum upplýsingum sem skipta máli fyrir kauptilboðsgerð. Kaupendur verða að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvað þeir vilja borga fyrir eignina á grundvelli söluyfirlits.
Ef til ágreinings kemur í fasteignaviðskiptum er söluyfirlitið yfirleitt fyrsta skjalið sem er skoðað og það er því mjög mikilvægt að setja eign aldrei á netið nema seljandinn sé búinn að lesa það vel yfir og samþykkja það skriflega.
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402