fimmtudagur 13.04.2023

Eru kauptækifæri á fasteignamarkaði?

Hvert er markaðurinn eiginlega að stefna? Ef við skoðum fyrirsagnir fjölmiðla þá stefnir hann lóðbeint í frost. Hins vegar segir mín 20 ára reynsla að þetta sé oft besti tíminn til að kaupa. Það er meira úrval af eignum og góðir kaupendur geta oft gert góð kaup ef þeir eru alveg tilbúnir þar sem seljendur eru oft tilbúnir að taka lægra tilboði ef það er fyrirvaralaust, þ.e. að kaupandinn eigi hvorki eftir að selja né fara í greiðslumat.

Það er gott og stöðugt framboð af eignum  og síðustu 12 mánuði hefur framboð á eignum stóraukist á höfuðborgarsvæðinu og farið úr 450 eignum á skrá í febrúar 2022 í 2090 eignir á skrá í byrjun mars 2023.  Þinglýstum kaupsamingum hefur einnig farið fækkandi á sama tíma og sölutími eigna lengist. Í janúar 2023 var þinglýst 276 kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma fyrir ári var þinglýst 499 samningum

Margir vilja bíða þar til botninum er náð. Það er hins vegar gott að hafa í huga að um leið og botninum er náð þá fer allt upp á við. Fasteignakaup fyrir langflesta snúast um að finna sér heimili. Þetta er ekki áhættufjárfesting heldur öryggi. Að vilja bíða eftir því að allt fari upp á við þýðir einfaldlega að þá fara verðin að hækka og við förum hægt og bítandi yfir á seljandamarkað sem þýðir hærri verð og minna framboð af eignum.

Stóra spurning er líka alltaf, Hvenær er botninum náð? Eftir hrun vildu margir bíða með kaup fram að stóru brunaútsölunni. Hún kom aldrei en smátt og smátt rétti markaðurinn úr kútnum. Það skiptir ekki máli á hvaða markaði við erum, ef eignin er undirverðlögð þá koma fleiri kaupendur og fleiri tilboð berast og eignin fer oftar en ekki á yfirverði.

Í dag er oft hægt að gera góð kaup og ef þú átt bæði eftir að kaupa og selja þá myndi ég alltaf ráðleggja að selja fyrst og kaupa svo og fá frekar langan afhendingartíma á eigninni sem þú ert að selja. Þú ert einfaldlega miklu sterkari kaupandi ef þú þarft ekki að gera fyrirvara um sölu og getur boðið betri greiðslur en sá sem á eftir að selja. Það getur munað mörgum milljónum hvort þú selur fyrst eða kaupir með fyrirvara um sölu á þinni fasteign.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur