Það er ýmislegt í gangi þegar kemur að greiðslumötum. Okkar reynsla er að það er lykilatriði að kaupendur séu komnir með staðfest greiðslumat áður en þeir gera tilboð í fasteign.
Oftar en einu sinni á síðustu mánuðum þá hafa bankar gert kröfu að kaupendur borgi upp lán, s.s.yfirdrátt, bílalán og raðgreiðslur en þegar á hólminn er komið þá fá þeir ekki lánið. Þannig að ef þú lendir í þessu þá myndi ég alltaf mæla með því að fá það staðfest skriflega að ef þú greiðir upp þessi lán að greiðslumatið og nýtt lán verði þá örugglega samþykkt.
Þú stendur alltaf betur að vígi sem kaupandi ef þú ert með samþykkt greiðslumat. Seljandinn er líklegri til að samþykkja tilboðið þitt og ef það eru fleiri en eitt tilboð á borðinu þá tekur seljandinn yfirleitt öruggasta tilboðinu jafnvel þó að það sé ekki hæsta tilboðið.
Það er mjög svekkjandi að missa af draumaeigninni af því að það á eftir að klára grunnvinnuna s.s. greiðslumatið. Það er hægt að gera bráðabirgðagreiðslumat hjá flestum lánastofnunum og það er amk góð byrjun. Flestar lánastofnanir eru með hámarkslán og til að fá hærra lán en t.d. 70.000.000 þá þarftu að hafa umtalsvert meiri afgang af ráðstöfunartekjum heldur en undir 70.000.000.
Einnig gilda reglur um hámark lánsupphæðar af ráðstöfnunartekjum. Það er því mikilvægt að skoða þetta vel áður en þú ferð af stað í tilboðsgerð. Greiðslumat gildir í 6 mánuði og ef þú ert að stíga þín fyrstu skref myndi ég alltaf mæla með því að panta tíma hjá þjónustufulltrúa í bankanum, fá lána ráðgjöf og gefa þér góðan tíma í að skoða þetta. Þú hefur ekki nema 2 vikur til að fá greiðslumat og taka ákvörðun um hvernig lán þú vilt taka þegar búið er að samþykkja tilboðið og svona stóra ákvörðun er yfirleitt betra að taka í ró og næði.
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402