fimmtudagur 28.09.2023

Eru opin hús tímaskekkja?

Ég hef unnið við fasteignasölu í 20 ár. Ég byrjaði hjá RE/MAX og við vorum fyrst til að innleiða opin hús. Margir seljendur voru fullir efasemda um þessi opnu hús. Eru það ekki bara forvitnir nágrannar sem koma? Ég er nú ekki að fara að heiman og skilja húsið eftir fullt af ókunnugu forvitnu fólki. Fljótlega urðu samt opin hús órjúfanlegur hluti af söluferlinu. Þrátt fyrir miklar framfarir í tækni þá hefur umgjörð opinna húsa ekkert breyst. Fasteignasalinn auglýsir opið hús á netinu, seljandinn tekur til og fer, fasteignasalinn kemur á staðinn og vonar að einhver mæti. Í Covid hannaði ég rafrænt bókunarkerfi þannig að kaupendur geta bókað sig sjálfir í opið hús og sótt rafrænan upplýsingabækling. Það eru í raun allir komnir með rafrænt bókunarkerfi. Hvort sem þú ert að fara í klippingu eða út að borða þá þarftu að bóka tíma fyrir fram. Líkamsræktarstöðvar gera kröfu um lágmarksfjölda í tíma annars falla þeir niður. Ég hef því verið hugsi hvort að það sé ekki kominn tími á að nútímavæða opin hús. Það er gífurleg vinna fyrir seljendur að undirbúa opin hús, það þarf að taka til og þrífa. Það er rask að þurfa að fara að heiman svo bara mætir enginn. Þegar hægir á markaði getur komið fyrir aftur og aftur að enginn mæti og margir seljendur hreinlega nenna ekki að halda opin hús. Ef við horfum á kolefnissporið þá er það gífurlegt á einu ári. Gefum okkur að það séu 100 tóm opin hús á viku á Íslandi. Það eru 20.800 óþarfa bílferðir á einu ári með tilheyrandi mengun og tímasóun. Við erum því gífurlega stolt af því að innleiða nýjung á íslenskum fasteignamarkaði. Ef enginn er bókaður í opið hús sólarhring fyrir opna húsið þá fellur það sjálfkrafa niður. Þannig sleppa seljendur við tímafreka tiltekt og geta nýtt tímann í gæðastundir fyrir sjálfan sig og sína fjölskyldu. Hvað, má þá ekki skoða fasteign? Auðvitað, þú bókar bara einkaskoðun hjá fasteignasalanum í staðinn. Aukin skilvirkni er allra hagur.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur