fimmtudagur 16.05.2024

Skiptir gagnaöflun máli fyrir sölu fasteigna?

Ég fékk athugasemd á Tiktok að gagnaöflun fyrir sölumeðferð tæki 1 mínútu. Mig langar að ráða viðkomandi í vinnu þar sem vinnan hjá okkur tekur nokkra klukkutíma. Við byrjum á því að sækja fasteignamat og veðbók. Það þarf að lesa bæði skjölin vel yfir til að sannreyna að allt sé rétt. Við sækjum svo öll skjölin sem er vísað í á veðbókinni og þarna er lykilatriði að lúslesa öll skjölin. Stundum eru kvaðir sem þarf að kynna sér, s.s. hvort að það sé forkaupsréttur. Það þarf að bera saman eignaskiptasamninginn og skráninguna þannig að þetta sé örugglega allt rétt og sannreyna að seljandi sé örugglega afsalshafi. Það er lykilatriði að lesa vel yfir lóðarleigusamninginn og passa að hann sé ekki útrunninn. Einnig að yfirfara hvort að sérafnotaréttur sé þinglýstur eða bara hefð. Stundum eru skjölin orðin það gömul að það þarf að panta þau frá þjóðskjalasafni. Það þarf einnig að panta öll lögveð, s.s.fasteignagjöld, fráveitugjöld og brunatryggingu. Einnig öll áhvílandi lán sem geta verið frá nokkrum lánastofnunum. Síðast en ekki síst þarf að panta yfirlýsingar húsfélaga. Þetta geta verið allt að 4 yfirlýsingar sem 4 mismunandi aðilar þurfa að fylla út, s.s. fyrir stigaganginn, heildarhúsið, bílskýlið og lóðina. Ef það eru framkvæmdir í gangi þá þarf að tryggja að við fáum nægar upplýsingar um þær framkvæmdir og hver kostnaðurinn við þær verður. Það þarf að panta úttektarskýrslur ef þær eru til staðar og kynna sér þær. Eru framkvæmdir í gangi núna þannig að seljandinn eigi að greiða þær eða eru þær yfirvofandi á t.d. næsta ári og lenda þá á kaupanda. Ítrekað þarf að ýta á þessar upplýsingar. Einnig þarf að skoða teikningar og sannreyna að þetta sé rétt eign. Þannig að kæri Vikdorio ef þú treystir þér til að fá öll þessi skjöl á 1 mínútu þá máttu endilega senda mér atvinnuumsókn á asdis@husaskjol.is

Það er samt eiginlega nauðsynlegt að þú skellir þér fyrst í löggildinguna þar sem þú þarft að geta rýnt öll skjölin.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur