fimmtudagur 06.07.2023

Er sumarið dauður sölutími?

Þetta er árleg spurning. Ásdís þýðir eitthvað að vera að setja á sölu á sumrin. Eru ekki allir í sumarfrí og markaðurinn alveg steindauður?

Mín 20 ára reynsla segir að sumrin eru oft besti tíminn til að kaupa og selja. Margir eru sannarlega í sumarfrí en þeir eru ekkert á faraldsfæti allan tímann. Þetta er einmitt tíminn sem fólk getur skoðað fasteign í ró og næði án þess að vera í stressi að drífa sig í vinnuna, sækja krakkana í leikskólann og púsla saman öllu skutlinu í tómstundirnar líka.

Reyndar man ég bara eftir einu sumri sem var alveg steindautt og það var þegar Ísland var að keppa á EM í fótbolta 2016 enda minnir mig að það hafi farið ca 30.000 Íslendingar farið erlendis eða 10% þjóðarinnar og hin voru of upptekin við að skipuleggja partýið þegar við myndum vinna EM og svo verða heimsmeistarar á næsta stórmóti til að hafa tíma til að skoða fasteignir.

Hús og sumarhús seljast sérstaklega vel á þessum árstíma enda mun skemmtilegra að skoða garðana í fullum skrúða en að vaða drullusvaðið á vorin. Núna eru líka margir að velta því fyrir sér hvernig markaðurinn muni þróast. Á að bíða eftir kannski mögulega lækkun sem jafnvel kemur eða á að stökkva núna og tryggja sér draumaeignina. 

Við því er bara eitt svar. Besti tíminn til að kaupa fasteign er þegar þú ert ekki í tímaþröng. Það er frábært að geta gefið sér nægan tíma til að skoða fasteignir og bera saman kosti og galla. Ef þú ert opin fyrir hverfum þá að keyra þá um mismunandi hverfi og máta sig inn í þau. Þá er einmitt frábært að nota sumarið í það þar sem það eru engar líkur á því að þú festir þig í misvelmokuðum götum og komist hvorki lönd né strönd. 

Mjög margir vilja líka vera búnir að festa sér fasteign áður en krakkarnir byrja í skólanum í haust og nota sumarið til að finna draumaeignina. 


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur