fimmtudagur 14.12.2023

Eru allir að selja ofan af sér?

Ég gerði videó fyrir stuttu sem hét hvað er fyrirvaralaust tilboð þar sem ég var að ráðleggja seljendum að selja fyrst og kaupa svo einfaldlega vegna þess að það eru fáir spenntir fyrir því að vera fastir í löngum eignakeðjum. Það voru ekki allir hressir með þessa ráðgjöf og einn aðili vildi meina að fólk yrði þá að treysta á gistingu í gistiskýli þar sem þetta myndi setja alla á götuna.

Núna veit ég ekki hafa heimildir viðkomandi hefur fyrir þessu og hann vildi ekki deila þeim með mér þannig að ég þarf þá að nota mínar eigin heimildir.

Þeir viðskiptavinir hjá Húsaskjóli sem hafa selt fyrst og keypt svo í ár hafa talað um hvað þetta sé miklu hagstæðara. Einn sagði, mér líður eins og kvikmyndastjörnu þar sem ég fæ svo miklu betri þjónustu því að ég er búin að fara í kaupsamning og búinn að fá greiðslumat. Það er engin óvissa í þessum fasteignakaupum. Seljandinn veit að kaupandinn mun geta staðið við tilboðið. Það er hægt að fara í kaupsamning á nokkrum dögum í staðinn fyrir að þurfa að bíða jafnvel mánuðum saman eftir því að löng eignakeðja gangi eftir. Ítrekað þarf að endurselja sömu eignirnar þar sem einhver fyrirvari í keðjunni gengur ekki upp. Kaupendur sem eru tilbúnir í kaupsamning geta yfirleitt gert mun betri kaup. 

Seljendur geta stillt upp hvaða afhendingartíma sem er. Ef þeir eiga eftir að kaupa þá er algengt að setja inn 3 mánuðum frá kaupsamningi eða fyrr. Það þýðir að oft eru það þá 4 mánuðir sem þeir hafa til að festa sér nýja eign. Sumir vilja afhenda eftir 5-6 mánuði og þá er tekið tillit til þess í greiðsluskilmálum kaupanda. 

Ef þú átt eftir að kaupa og selja þá mælum við hjá Húsaskjóli eindregið með því að byrja á því að fara í greiðslumat, selja svo þína og festa svo kaup á draumaeigninni. Þú getur sparað þér háar upphæðir með því að fara þessa leið.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur