fimmtudagur 01.08.2024

Er sniðugt að börn kaupi sig inn hjá foreldrum?

Ég fékk þessa spurningu um daginn hvort að það gæti verið sniðugt að börn keyptu sig inn hjá foreldrum til að lækka lán foreldra tímabundið. Í raun gæti þetta átt við allskonar hópa, foreldrar kaupa sig inn hjá börnum, systkini og vinir.

Þetta getur verið mjög vandmeðfarið og mjög mikilvægt að hafa skýrar línur áður en haldið er af stað.

Segjum t.d. að börnin kaupi 15% af íbúðinni. Hvernig verður endurgreiðslan? Fá þau 15% af andvirði eignarinnar til baka? Ef ekki hvaða ávöxtun fá þau til baka? Er þetta hugsað sem vaxtalaust lán og hversu mikið hefur þá eigið fé barnanna rýrnað á tímabilinu? Hversu langt tímabil erum við að ræða um? Geta börnin krafist þess að fá endurgreitt hvenær sem er?

Hvaða úrræði hafa börnin ef foreldarnir geta ekki endurfjármagnað eignina þegar börnin þurfa að fá greitt? Hvað ef sambandið hefur súrnað í gegnum tíðina og foreldrarnir vilja alls ekki endurgreiða börnunum þeirra eigið fé? Það geta verið allskonar ástæður sem koma upp. Margar hugmyndir virka frábærar á teikniborðinu en þegar á hólminn er komið þá eru allskonar flækjustig og útgönguleiðin er ekki skýr og allt í einu sitja börnin föst sem meðeigendur í eign foreldra sinna og peningarnir eru í gíslingu um óskilgreindan tíma.

Mín ráðlegging er að áður en farið er út í svona aðgerðir að setja upp versta tilfelli plan og skoða allar mögulegar útgönguleiðir.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur