fimmtudagur 02.11.2023

Þarf að segja frá draugnum?

Það hvíla ýmsar kvaðir á seljendum og ein af þeim er að segja frá leyndum göllum. Sama gildir um fasteignasala ef hann veit af leyndum galla þá ber honum að upplýsa kaupendur um slíkt. Þrátt fyrir að fasteignasali sé bundinn trúnaði við sína viðskiptavini, bæði kaupendur og seljendur þá getur seljandi ekki upplýst fasteignasala um galla, t.d. að skolpið sé ónýtt og farið fram á að hann haldi þeim upplýsingum fyrir sig án þess upplýsa kaupanda.

Hversu langt nær þessi upplýsingaskylda seljanda samt?

Þarf hann að upplýsa ef morð var framið í húsinu? Hvað ef einhver dó í húsinu eðlilegum dauðdaga? Hvað með erfiðara nágranna, eru þeir galli? Það er algengara en okkur grunar að nýjir kaupendur þurfi að hreinsa út áru sem fylgir húsinu. Yfirleitt höfðu seljendur ekki hugmynd um þetta þar sem við erum misnæm en ef seljendur vissu að það væri reimt í eigninni þá ber þeim að upplýsa það. Hver hefur ekki séð Poltergeist? Ég man eftir aðilum sem keyptu dánarbú. Þau fengu eignina þar sem þau voru svo hrifin af húsinu og ætluðu að gera litlar breytingar. Eftir að þau fengu afhent kom svo í ljós að sá sem byggði húsið var bara ekkert fluttur og þau þurftu að fá aðstoð til að hreinsa húsið.

Meginreglan er að ef þú telur að þetta gæti valdið kaupanda óþægindum þá þarf að upplýsa um það. Morð er sannarlega einn af þeim hlutum sem kaupandi myndi vilja vita af þannig að ef einhver var myrtur í eigninni þarf alltaf að upplýsa það. Hins vegar er eðlilegur dauðdagi bara hluti af hringrás lífsins og þarf ekki að upplýsa það sérstaklega. 

Það hafa fallið dómar vegna erfiðra nágranna og ef það er til eitthvað skriflegt um erfið samskipti, t.d. fundargerðir í húsfélögum, kærur til húseigandafélagsins eða hreinlega dómur um áreiti þá ber að upplýsa um það. Nýlegir dómar sýna að nágrannar geta verið galli og seljanda ber að upplýsa um það. Það þarf hins vegar ekki að upplýsa að Sigga á neðri hæðinni fari svakalega í taugarnar á þér. Þú gætir allteins verið vandamálið og þegar þú flytur fellur allt í ljúfa löð í húsinu.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur