fimmtudagur 14.03.2024

Hver eru fyrstu skrefin í að kaupa eign?

Ef þú ert að fara að kaupa þína fyrstu eign þá myndi ég alltaf byrja á því að fara í greiðslumat. Greiðslumat er lykilatriði í fasteignakaupum þar sem þá veistu hversu dýra eign þú mátt kaupa. Það er fínt að byrja á því að skoða reiknivélar bankanna og bera saman lán. Getur kíkt á www.aurbjorg.is þá sérðu veðhlutfall, vexti og allt sem skiptir máli. Einnig myndi ég fara inn á reiknivél hjá fjármálastofnun og leika mér að því að skoða mismunandi lánalengdir. Þegar það er komið myndi ég fara í formlegt greiðslumat.

Það er mjög sniðugt að gera óskalista yfir nýju íbúðina. Í hvaða hverfi á hún að vera, hvað þarftu mörg svefnherbergi, skiptir hústegund máli. Síðan myndi ég fara í opin hús til að fá tilfinningu fyrir mismunandi eignum sem og fá betri verðvitund.

Til að sjá hvort að eignin er búin að vera lengi á skrá og jafnvel hvort að einhverjar verðbreytingar hafi átt sér stað þá mæli ég með því að fara á www.fastinn.is og sjá hvenær eignin var fyrst skráð á netið. Ef hún er nýskráð og eingöngu búin að vera í sölu í nokkra daga er yfirleitt erfiðara að lækka verðið heldur en ef hún er búin að vera lengi á sölu.

Til að sjá hvað sambærilegar eignir hafa verið að seljast á mæli ég með að skoða www.verdsaga.is þá getur þú leitað í öllum þinglýstum kaupsamningum og séð raunsöluverð fasteigna. Þegar kemur að því að skoða þá er mikilvægt að hafa í huga að skoðunarskylda kaupanda er mjög rík og þú kaupir það sem augað sér. Þannig að ef þú ert t.d. að kaupa eldri eign þá myndi ég alltaf mæla með ástandsskoðun á þeirri eign.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur