fimmtudagur 21.03.2024

Ertu að tapa vöxtum?

Í þessu hávaxtaumhverfi sem við erum í núna er gífurlega mikilvægt að skoða vel hvaða vexti þú ert með á þínum reikningum. Ef þú ert að spara fyrir íbúð þá bjóða bankarnir upp á sérstaka íbúðarsparnaðarreikninga. Það er mikilvægt að hafa í huga að það er ákveðin binding á þeim en það þarf ekki að vera skilyrði að þú notir inneignina í íbúðakaup þar sem áætlanir geta breyst.

Það er hægt að fara inn á www.aurbjorg.is og bera saman alla sparnaðarreikninga sem er í boði. Ég mæli eindregið með því að skoða það vel og taka síðan ákvörðun út frá þínum þörfum. Oft getur verið sniðugt að hafa hluta í langtímasparnaði og hluta á góðum reikningi sem er óbundinn. Sumir greiða vexti einu sinni í mánuði og aðrir árlega.

Núna þegar stefnir í að stýrivextir séu mögulega að fara að lækka getur verið sniðugt að setja þá peninga sem mega vera í langtímasparnaði inn á reikning sem er bundinn til lengri eða skemmri tíma þar sem þá tryggir þú þér þá vexti sem eru í boði daginn sem reikningurinn er stofnaður. Sem dæmi ef þú stofnar bundinn reikning til 12 mánaða á 9.15% vöxtum hjá Auði þá heldur þú þeim vöxtum næstu 12 mánuði. Það gildir reyndar líka ef vextir hækka þá ert þú bundin með lægri vexti næstu 12 mánuði. Þannig að ef þú festir þína peninga á 9.15% vöxtum og svo hækka þeir í 10% þá heldur þú 9.15%. En hvað sem þú gerir ekki geyma háar upphæðir á lágvaxtareikningum.

Þetta geta verið umtalsverðar upphæðir sem þú tapar á ógreiddum vöxtum. Ég mæli með því að fylgjast aðeins með umræðunni um stýrivexti og hvort að þeir séu líklegir til að hækka eða lækka. Þú getur séð hvenær Seðlabankinn tekur stýrivaxta ákvarðanir inn á

https://www.sedlabanki.is/peningastefna/peningastefnunefnd/

Ég mæli einnig með því að panta tíma í fjármálaráðgjöf hjá þínum viðskiptabanka til að skoða hvernig sparnaður og hvernig reikningar henta þínum lífstíl og þínum framtíðarplönum best.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur