miðvikudagur 07.08.2024

Er í lagi að fiffa kaupverðið?

Ég sá þessa spurningu í FB hóp um daginn. Get ég selt íbúðina mína á miklu hærra verð þannig að kaupandinn þurfi ekki að borga útborgun og sé í raun að fá 100% lán. Stutta svarið er NEI þar sem þetta er skjalafals.

Auðvitað má fólk gera allskonar gjörninga sín á milli en til að kaupandinn þurfi ekki að borga útborgun þá þarf að sýna amk 20% hærra kaupverð. Þannig að ef þú kaupir íbúð á 50.000.000, þá þyrftir þú að eiga 10.000.000 þannig að kaupverðið á pappírunum þyrfti þá að vera 60.000.000. Það fyrsta sem bankinn myndi skoða væri er íbúðin 60.000.000 virði. Mjög líklegt er að bankinn myndi hafna þessu láni. Ef það færi í gegn þá þarf einhvern veginn að “fiffa” þessar 10.000.000.

Fólk getur gert baksamninga en þeir eru akkúrat þetta, baksamningar og engin leið að leita réttar síns með þá. Ef annar aðilinn gengur á bak orða sinna, í þessu tilfelli væri það væntanlega seljandinn þá væri kaupandinn nauðbeygður til að standa við þinglýstan kaupsamning nema hann vildi kæra sjálfan sig fyrir skjalafals. Ein ráðleggingin sem ég sá var að hafa lokagreiðsluna 20% og gefa svo afslátt vegna “galla”.

Svona stórlokagreiðsla er gífurlegt frávik og myndi líklega vekja upp spurningar í bankanum og málið yrði skoðað betur. Ef þetta slyppi í gegn og kaupandinn fær þinglýstan samning þá myndi hann aldrei geta gert gallakröfu sama hvað kæmi upp á því hann var jú búinn að fá 20% afslátt vegna meintra galla. Löggiltur fasteignasali myndi líklega aldrei ganga frá svona samningi þar sem hann er opinber sýslunarmaður og gæti misst löggildinguna við svona gjörning.

Kalt mat er að þetta er vond hugmynd á allan hátt.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur