fimmtudagur 01.06.2023

Hvað er húsfélag?

Í stuttu máli eru öll hús sem eru ekki einbýlishús fjöleignarhús í skilningi laganna. Það þýðir að lög um fjöleignarhús gilda um allar aðrar eignir, hversu margir eða fáir eignarhlutar eru í húsinu. 

Ef húsið er fjöleignarhús þá gilda líka reglur um húsfélög. Þetta þýðir í einfaldlega að öll fjöleignarhús hafa húsfélög þó að mörg þeirra séu ekki með virk húsfélög. Þegar þú kaupir eign í fjöleignarhúsi er því gífurlega mikilvægt að vita hvort að það sé starfandi húsfélag eða ekki.

Ef það er starfandi húsfélag þá verður að liggja fyrir yfirlýsing húsfélags. Í henni kemur m.a. fram hversu hátt húsgjaldið er. Hvað sé innifalið í húsgjöldum og hvort að það séu einhverjar framkvæmdir í gangi eða væntanlegar.

Ef það er ekki starfandi húsfélag þá verður að liggja fyrir yfirlýsing þess efni að húsfélag sé ekki starfandi og að engar framkvæmdir séu væntanlegar eða í gangi. Aðrir eigendur t.d. í raðhúsi undirrita þá yfirlýsingu þess efnis að ekki sé starfandi húsfélag og engar framkvæmdir séu væntanlegar eða fyrirhugaðar.

Allt ytra byrði hússins er sameign og því getur einn eigandi t.d. raðhúss ekki farið í framkvæmdir einhliða og verið svo laus allra mála þegar aðrir fara í framkvæmdir. Tökum dæmi um raðhús þar sem einn eigandi ákveður að skipta um þak yfir sínu húsi. Þak er alltaf sameign og þó að hann ákveði að skipta um þak í ár einhliða þá geta aðrir eigendur ákveðið að skipta um þak eftir 5 ár og þá ber honum að taka þátt í þeim kostnaði. 

Þegar eign í fjöleignarhúsi er sett á sölu þá ber fasteignasala skylda að afla yfirlýsingar húsfélags. Ef hún liggur ekki fyrir þá er hægt að gera tilboð með fyrirvara um yfirlýsingu húsfélags en það er alltaf best að hafa allar upplýsingar á borðinu þegar tilboð er gert.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur