fimmtudagur 17.10.2024

Eru gamlar lagnir falinn galli?

Ég fékk spurningum um daginn þar sem spurt var hvort að gamlar lagnir væru falinn galli. Samkvæmt upplýsingum viðkomandi þá var þetta hús byggt 1973 og hvergi kom fram að lagnir væru endurnýjaðar. Ef þú ert að skoða upprunalegt hús frá 1973 og ekki tekið fram um að það sé endurnýjað þá er skoðunarskylda kaupanda gífurlega rík.

Frasinn þú kaupir það sem augað sér á alltaf við en þú átt líka að vita að 51 ársgamlar lagnir gætu verið komnar á tíma. Ef þú ert að kaupa gamla eign þá mæli ég alltaf með því að láta ástandssskoða hana, það ert.d. hægt að mynda lagnir en það er afar hæpið að tala um galla í 51 árs gömluhúsi sem hefur ekki verið endurnýjað.

Það er hins vegar gífurlega mikilvægt að ef seljendur taka fram að eitthvað sé endurnýjað að þeir geti hreinlega framvísað sönnun þess efnis. Ef þeir létu framkvæma eitthvað að vísa fram kvittunum eða yfirlýsingu frá þeim iðnaðarmanni sem framkvæmdi verkið.

Líftími lagna, glugga, glerja, þaks og svo framvegis er ekki endalaus og það skiptir því miklu máli að skoða fasteignina vel og sérstaklega ef þú ert ekki sérfræðingur og eignin er gömul þá alltaf taka með þér sérfræðing eða gera tilboð með fyrirvara um ástandsskoðun. Það getur bjargað þér frá kostnaðarsömum framkvæmdum síðar.

Ef meiriháttar galli kemur í ljós við ástandsskoðun getur þú einfaldlega fallið frá tilboðinu eða endursamið um kaupverðið miðað við raunverulegt ástand eignarinnar og það er alltaf auðveldara að semja um gallamál fyrir kaupsamning en eftir afhendingu þar sem fyrir kaupsamning þá ná aðilar annað hvort saman um lækkun kaupverðs eða tilboðið fellur niður.

Eftir afhendingu þá getur þetta endað í dýrum dómsmálum þar sem báðir aðilar sitja eftir með sárt ennið þar sem kostnaður í svona málum hleypur alltaf á milljónum og jafnvel þó að þú vinnir málið þá situr þú yfirleitt uppi með töluverðan kostnað í lögfræðikostnaði.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur