fimmtudagur 01.02.2024

Eru allir sérfræðingar á fasteignamarkaði?

Löggiltur fasteignasali er lögverndað starfsheiti með margsháttar skyldum. Við erum með starfsábyrðartryggingu ef við gerum mistök og erum undir ströngu eftirliti með okkar störf. Ég sé mikið í mínu starfi að mínir viðskiptavinir vísa í allskonar aðila sem eru að veita þeim ráðgjöf.

Algengast er að einhver vinur eða ættingi er að veita ráðgjöf varðandi tilboðsgerð. Oftast er ráðgjöfin frábær en stundum er hún alveg á skjön við hvað er í gangi á markaði. Þegar ég kanna betur hvað er í gangi þá er þetta oft ættingi sem byggði sjálfur hús fyrir 20 árum eða aðili sem hefur hvorki keypt né selt í langan tíma.

Fasteignamarkaðurinn er mjög lifandi og það sem virkaði fyrir 2 árum virkar ekki endilega í dag. Þegar ég keypti mína fyrstu íbúð þá var hægt að fá 65% lán sem þýddi að við vorum að dreifa útborgun í allt að eitt ár. Í dag eru lánin mun hærri og mjög óhefðbundið að dreifa útborgun í eitt ár. Í raun man ég ekki eftir því að hafa séð svona tilboð í mjög langan tíma.

Fasteignasalinn sem er að selja eignina sem þú ert að kaupa veit hverjar þarfir seljanda eru og veit því hvernig tilboði hann getur tekið. Stundum er verið að selja tóma eign þannig að það er hægt að bíða eftir sölu á annari eign og greiðslum í samræmi við það. Stundum er seljandinn búinn að festa sér aðra eign og getur ekki afhent fyrr en ákveðnum tíma.

Það er vænlegast til árangurs að taka mið af þörfum seljanda í tilboðsgerð þar sem hann getur einfaldlega ekki tekið tilboði sem gengur ekki upp fyrir hann. Ef það kemur upp galli í fasteign þá er gífurlega mikilvægt að láta seljandann vita um leið og einnig að upplýsa fasteignasalann. Það er dýrt og tímafrekt ferli að fara beint í lögfræðing sem er því miður ráðlegging sem ég sé ótrúlega oft á samfélagsmiðlum.

Flestir vilja ná sáttum þannig að í raun og veru hvað sem kemur upp á í ferlinu þá myndi ég alltaf byrja á því að heyra í þínum fasteignasala og fá aðstoð. Ef svo illa vill til að fasteignasalinn sé vandamálið þá er hægt að heyra í Félagi Fasteignasala sem getur ráðlagt með næstu skref.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur