fimmtudagur 29.09.2022

Lýsing innandyra - hvað er hægt að gera?

Góð lýsing á heimilum skiptir höfuðmáli. Þegar það tekur að dimma á haustin og dagsbirta er af skornum skammti er gott að geta leikið sér með birtuna inn á heimilinu og þannig haft áhrif bæði á upplifun á rýminu og jafnvel betri heilsu og líðan. 

Almenn Lýsing

Best er auðvitað að nýta dagsbirtuna eins lengi og hægt er og á sem flestum stöðum í húsinu. Hleypa dagsbirtunni inn í dimm horn þar sem það er hægt, í anddyri, stiga, salerni og baðherbergi. En þegar kemur að grunnlýsingu þá er talað um loftljós eða umlykjandi lýsingu. Það er lýsingin sem lýsir upp rýmið á nauðsynlegan hátt og er bakgrunnur fyrir alla aðra lýsingu. Birtan hér kastast á fleti, td. loft eða veggi sem síðan endurkastar henni. Mjög gott er að hafa dimmera á þessum ljósum og geta þannig stýrt birtustiginu. Í dag nota fjölmargir HDL hita- og ljósastýrikerfi en það kerfi býður upp á endalausa möguleika. Ljósunum í tilteknu rými eru þá stýrt með spjaldtölvu og hægt að hanna  stýringar eftir eigin stemningu. 

Áherslulýsing

Því næst er hægt að leika sér með lýsingu sem er til þess að vekja athygli á sérstökum hlut eða svæði. Yfirleitt er hér notast við kastara eða borðlampa með dökkum skermi. Eintóna áherslulýsing gefur rýminu líf og karakter. Hér er hægt að umbreyta stofunni til dæmis með því að lýsa upp falleg málverk eða skrautmuni. Til viðbótar er vinnulýsing nauðsynleg áherslulýsing eins og til dæmis í eldhúsinu, baðherbergi og vinnuherbergi. Hér er þá verið að lýsa upp ákveðið svæði til viðbótar við almenna lýsingu til þess að geta athafnað sig betur. 

Skrautlýsing

Þessi lýsingaraðferð er meira fyrir augað og er oft hreyfanleg lýsing eins og arineldur eða kertaljós. Nú í dag er einnig orðið vinsælt að sjónvarpið varpi frá sér bakgrunns birtu og myndi það flokkast sem skrautlýsing. Gólflampar geta þjónað því hlutverki að vera bæði áherslulýsing og skrautlýsing. Hægt að lýsa á alla vegu og eru lampar oft fallegir hönnunarmunir. 

Val á peru

Í dag eru þrjár tegundir ljósgjafa sem notaðir eru í heimilislýsingu. Halogenperur eru þær perur sem flestir þekkja til. Þær svipa mikið til glópera og það er glóþráður hitaður upp til að mynda ljós. Þegar kveikt er á perunni verður ljósmagn fullt strax en birtan gefur frá sér hlýjan ljóslit og er auðdeyfanleg sem eykur endingu perunnar. Í henni er ekkert kvikasilfur og engir rafeindahlutir og má því henda henni með venjulegu heimilisrusli. Ef litið er á galla hennar má þar nefna að þær verða ansi heitar og þarf því að velja rétta lampa og halda ákveðinni fjarlægð frá peru. 

Flúrperur má finna í alls konur stærðum og gerðum en sú pera sem yfirleitt er valin er svokölluð sparpera. Inni í perunni er einnig þráður sem er hitaður upp en til viðbótar sendir hann frá sér rafeindir sem lenda á kvikasilfuratómum sem eru líka inni í perunni. Það myndar ósýnilegt útfjólublátt ljós sem verður sýnilegt með rafrænum stjórnarbúnaði sem er innbyggður í peruna. Líftími flúrperunnar er lengri en halogen og hún er hagstæð í verði en vegna innihalds hennar þarf að farga henni með réttum hætti. 

LED perur verða sívinsælli en ljósið í þeim myndast í hálfleiðara sem fær rafboð. Í perunum er góð ljósnýtni og þær endast mjög lengi. Það eru engir útfjólubláir eða innrauðir geislar innan í perunni og litlum hita stafar frá þeim. Hægt er að litastýra perunni stafrænt sem býður upp á mikla möguleika og það kviknar strax á þeim. Eini gallinn er í raun að þær gefa ekki frá sér samfellt ljóstilróf sem þýðir yfirleitt minni ljósgæði og eru gæðin oft mismunandi eftir framleiðendum.

Photo credit: Mynd 1 Minha Baek - Mynd 2 Timothy Eberly - Mynd 3 Max Harlynking


Aðrar færslur