Ég talaði um það um daginn að allt að 50% kaupenda hefðu verið að falla á greiðslumati eftir að hafa fengið samþykkt tilboð í eign hjá okkur. Það var ansi margt sem spilaði inn í en stærsti þátturinn var þó að reiknivélar bankanna eru ekki áreiðanlegar og því nær ómögulegt fyrir kaupendur að vita nákvæmlega hvað þeir mega kaupa dýra eign.
Með því að panta fjármálaráðgjöf hjá sinni lánastofnun og fá staðfest greiðslumat er hægt að koma í veg fyrir þetta að mestu leiti.
Ég persónulega myndi aldrei fara af stað í fasteignakaup nema vera komin með staðfest greiðslumat. Það er stressandi að kaupa og selja fasteignir og að vera með kvíðahnút í maganum í 1-2 vikur hvort að þú fáir greiðslumat er mjög stressandi tímabil. Með því að vera komin með staðfest greiðslumat er hægt að skoða lánaafurðir í ró og næði. Taka ákvörðun hvort að verðtryggt, óverðtryggt eða blandað lán henti best sem og hversu langt lán þú vilt taka.
Það eru líka fleiri þættir sem spila inn í s.s. brunabótamat og fasteignamat íbúðar. Sumar lánastofnanir miða við að upphæð lánsins megi ekki vera hærri en brunabótamat plús lóðamat á meðan aðrir miða við brunabótamat og 2x lóðamat. Það er því mikilvægt að þekkja þessar reglur áður en tilboð er lagt fram í draumaeignina.
Með því að vera kominn með staðfest greiðslumat ertu einnig orðinn einn besti mögulegi kaupandinn. Það eru því góðar líkur á því að ef þú ert með góðar greiðslur og staðfest greiðslumat að seljandinn skoði aðeins lægra tilboð frá þér en þeim sem eru ekki komnir með staðfest greiðslumat og eiga jafnvel eftir að selja fasteign.
asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402