fimmtudagur 22.09.2022

Haustverkin

Nú þegar hausta fer og margir hverjir komnir í mikið innipúkaskap í kuldanum eru þó nokkur atriði utandyra sem ber að hafa í huga áður en fyrsta frostið kemur.

Haustlaukar

Á haustin er tíminn til þess að pota niður haustlaukunum og búa í haginn fyrir blómríkt vor. Best er að gróðursetja þá í september/október, eða alveg þar til fyrsta frostið kemur í jörð. Flestar tegundir kjósa skjól og birtu en þola þó smá raka og skugga. Það gildir einföld þumalfingursregla þegar laukarnir eru settir niður. Dýptin á að vera tvö til þreföld þykkt laukana og ef jarðvegurinn er laus að hafa það enn dýpra. Bilið á milli þeirra á að vera svipað og betra er að planta þeim saman í litlar þyrpingar heldur en að setja einn og einn á víð og dreifum garðinn. 

Þú þarft ekki að að eiga garð til þess að njóta haustlaukanna. Hægt er að setja þá niður í ker eða potta með gati á botninum og hafa á svölum eða tröppum. Mundu bara að setja möl neðst og svo blöndu af mold og sandi eða vikri þar ofan á til að lofta vel um og sporna því að moldin verði of blaut. 

Þegar laukarnir eru komnir niður þurfa þeir litla sem enga umhirðu. Því er ekki seinna vænna en að skella haustlaukunum niður og hlakka til þess þegar glitta fer í þessa litskrúðugu vorboða. 

Gróðursetja tré/runna

Þessi árstími er einnig tilvalinn til þess að gróðursetja runna eða tré en rakinn gerir þeim kleift að fest ræturnar vel fyrir veturinn. Oftast, búandi á Íslandi, rignir vel á haustin og því óþarfi að hugsa um vökvun. Tré er gróðursett þannig að rótarhausinn fer allur á kaf í holunni en þó ekki dýpra heldur en hann var í pottinum frá gróðrastöðinni. Runnagróður er hægt að gróðursetja dýpra. 

Þær trjá- og runnategundir sem ræktaðar eru hér á Íslandi og eru tilvaldnar að gróðursetja á þessum tíma eru barrtré, lauftré, skrautrunnar og limgerðisplöntur.  

Frágangur í garðinum 

Þegar laukar, runnar og tré eru komin á sinn stað í moldinni er gott að raka lauf af grasflötinni til að lofta um hana. Hægt er að nýta laufblöðin sem áburð með því að mylja þau niður og setja í beð undir limgerði eða í safnhauginn. Þau brotna vel niður og verða að góðri mold. Einnig er hægt að nota laufblöðin til þess að hlífa viðkvæmum gróðri. 

Yfirleitt er mælt með því að slá garðinn einu sinni enn fyrir veturinn en ekki er gott að gera það seint á haustin. Ef grasið er orðið smá loðið að þá er það betra til að hlífa rótinni. Ef þú vilt fríska upp á grasið og/eða sporna við mosavexti er gott að dreifa sandi yfir grasið. 

Að lokum ber að nefna að ekki er gott að klippa og snyrta trjágróður á þessum árstíma. Það eykur líkurnar á sveppasýkingu sem geta myndast við sárin. Best er að geyma það til seinni part veturs.

Photocredit: Mynd efst og sem burðarmynd - Alex Wing. Miðjumynd - Jonathan Kemper


Aðrar færslur