fimmtudagur 10.03.2022

Hvernig fasteignir seljast best?

1.    Rétt verðlagðar eignir seljast alltaf best:

Núna er markaðurinn þannig að kaupendur búast við að eignin fari á yfirverði. Samt segja síðustu tölur að um 40% eigna seljist á yfirverði, þannig að um 60% gera það ekki. Það þarf því að vanda verðlagningu sérstaklega vel því að ef eignin er verðlögð of hátt þá meta kaupendur oft stöðuna þannig að þeir treysta sér ekki í yfirboð og skoða því eignina ekki. Sem dæmi: Eign sem er 50.000.000 virði. Seljandi vill setja á hana 54.000.000 til að prófa markaðinn. Kaupendur hafa áhyggjur af því að eignin fari á yfirverði og eru ekki tilbúin að borga 56.000.000 fyrir eignina. Þeir eru einnig sannfærðir að það þýði ekkert að bjóða undir og skoða því ekki eignina. Hefði ásett verð verið 49.000.000 þá hefðu líklega fleiri mætt til að skoða og eignin mögulega farið á yfirverði.

 

2.    Sérbýli eru mjög góð söluvara núna:

Sérbýlin eru að toppa núna. Þau eru viðkvæmust fyrir sveiflum á markaði og hækka síðust og lækka fyrst. Akkúrat núna eru þau að seljast á mjög háu verði en við vitum ekki alveg hvaða áhrif hækkandi íbúðavextir og þannig lægra greiðslumat hjá mörgum kaupendum muni hafa á verðmyndum á sérbýlum. Ef þú ert búin að vera að hugsa um að selja sérbýli í nokkur ár þar sem það er alltof stórt fyrir þig þá myndi ég mæla með því að selja núna.

 

3.    Litlar eignir:

Það er mikið af fyrstu kaupendum að leita að sinni fyrstu eign og verðin eru há. Þeir eru því tilbúnir að kaupa aðeins minni eign en oft áður til að komast inn á markaðinn. Einnig eru fjárfestar mikið að kaupa minni eignir til að festa peningana í steinsteypu.

 

4.    Eignir með aukaíbúð:

Þær hafa verið mjög vinsælar núna. Bæði vegna þess að margir búa lengur heima og því er freistandi að kaupa eign þar sem unga fólkið getur búið heima en samt verið sér og einnig eru margir að kaupa til að hafa foreldra sína heima hjá sér. Að lokum eru það kaupendur sem sjá sér fært að komast í draumahúsið með því að hafa útleigueiningu sem borgar hluta af afborgunum.

 

5.    Sérinngangur og pallur:

Við tókum eftir því að í Covid urðu sérinngangar og sérafnotaréttir gífurlega vinsælir. Þegar þú þarft að vinna heima vikunum saman og hafa ofan af börnunum á sama tíma þá var það gífurlega mikill kostur að geta skutlað börnunum út á pallinn að leika og ná að vinna aðeins í næði. Pallar eru einnig mjög vinsælir þessa 3 sólardaga sem við fáum á höfuðborgarsvæðinu. Ég spái því að sérafnotaréttir og sérinngangar haldi vinsældum sínum áfram þrátt fyrir afléttingar.

 

6.    Fasteignir sem þarf að taka í gegn:

Á mínum 19 ára ferli hef ég aldrei séð jafnmikla eftirspurn eftir fasteignum sem þarf að taka í gegn en akkúrat núna. Það skiptir voðalega litlu máli hvort að þetta séu litlar íbúðir eða sérbýli. Það heillar kaupendur að geta keypt sér eign á aðeins lægra verði og gert hana að sinni. Ég myndi aldrei ráðleggja seljanda að taka eignina í gegn eingöngu til að selja hana aftur. Það sem við erum að sjá núna er að verðin á þessum íbúðum eru samt það há að endurbæturnar fást sjaldan til baka í söluverðinu.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur