fimmtudagur 14.04.2022

Undirbúningur fyrstu kaupenda

Hvað er lánshæfismat?

Það fyrsta sem ég ráðlegg fyrstu kaupendum að gera er að skoða lánshæfismatið sitt. Það er gert með því að fara inn á mitt.creditinfo.is og velja Lánshæfismat. Lánshæfismat er mat á líkum þess að kaupandinn geti staðið við sínar skuldbindingar og er m.a. notað af fjármálastofnunum við greiðslumöt og lánsumsóknir. Ef lánshæfismatið er lágt þá er oft nauðsynlegt að byrja á að skoða hvers vegna og skoða leiðir til að hækka það.

 

Hvenær á að gera greiðslumat?

Áður en fyrsti kaupandi byrjar á því að skoða fasteignir mæli ég alltaf með því að fara inn heimasíðu sinnar fjármálastofnunar og gera bráðabirgðagreiðslumat. Það sýnir hvað þú getur keypt fyrir mikið. Að gera tilboð í eign í dag án þess að vera búin að kanna greiðslugetu sína er yfirleitt sóun á tíma þar sem seljandur geta oft valið úr fleiri en einu tilboð og þeir velja yfirleitt öruggasta tilboðið.

 

Hvað með sparnaðarreikningana?

Margir fyrstu kaupendur eiga lokaðan sparnaðarreikning sem hefur mislangan binditíma. Gífurlega mikilvægt er að athuga hver binditíminn er á þessum reikningum, þ.e. hvenær er hægt að taka út peninga af þeim. Ég er t.d. nýbúin að læra að reikningur sem var bundinn til 18 ára aldurs er með 3ja mánaða uppsagnarákvæði. Einnig eru margir bundnir til 36 mánaða og oft vandkvæðum bundið að losa þá fyrr.

 

Get ég notað séreignarsparnaðinn?

Ef kaupandi ætlar að nota séreignasparnaðinn til fasteignakaupa er mikilvægt að kynna sér úttektarreglurnar. Það er hámark á úttekt hvers árs og ekki er hægt að taka út sparnað sem var lagður inn fyrir júlí 2014. Ég mæli með því að fá yfirlit frá sínum sjóð og skoða hvaða reglur eru við úttektina. Séreignasparnaður kemur alltaf til útgreiðslu eftir þinglýsingu kaupsamnings og nýtist því sem afhendingargreiðsla eða lokagreiðsla. Ef þetta er há upphæð getur verið skynsamlegt að kanna með tímabundinn yfirdrátt hjá banka til að geta greitt hærri kaupsamningsgreiðslu

 

Þarf ég að þarfagreina mín kaup?

Fasteignakaup taka tíma og það þarf oft að skoða margir eignir áður en draumaeignin finnst. Til að spara tíma þá mæli ég með því að gefa sér góðan tíma til að greina þarfirnar áður en haldið er af stað. Ertu til í viðhald? hvaða staðsetningu ertu að horfa á?. Hver eru framtíðarplönin? Er kannski skynsamlegra að skoða 3ja herbergja íbúð. Góð þarfagreining getur sparað ansi marga klukkutíma í fasteignaleit.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur