fimmtudagur 18.08.2022

Innanhússtrend fyrir haustið

Núna þegar sumrinu fer að ljúka og margir hverjir farnir að kveikja á kertum og gera huggulegt í kringum sig fyrir komandi inniveru er gaman að skoða hvernig þú getur breytt til á heimilinu. Hér eru nokkrar hugmyndir sem eru í takt við strauma og stefnur í innanhúshönnun þetta haustið.

Opnar hillur

Fallegt og gott skápapláss í eldhúsinu mun aldrei tapa gildi sínu en opnar hillur eru í auknum mæli notaðar til þess að gefa rýminu meira flæði og svip. Fyrir þá sem eru með hefðbundið eldhús þá er gaman að flikka upp á með opnum hillum. Þannig getur þú gert eldhúsið að þínu með því að notast við körfur, krukkur, fallega diska og glös í hillunum. Einnig eru krókar og snagar góð leið til þess að geyma áhöld, potta & pönnur og þar með auka plássið í skápunum. 

Gott er að muna að ,,minna er meira”. Við viljum alls ekki skapa óreiðu í eldhúsinu okkar. Íhugaðu vel hvaða hlutir gefa rýminu aukið vægi. Þetta á líka við í öðrum herbergjum eins og borðstofu og stofu svo einhver dæmi séu tekin. Veldu fáa en fallega hluti sem gefa tilbreytingu í áferð. Lampar geta gert góða hluti fyrir birtuna og mottur og púðar eru góð leið til að gefa herbergjum mismunandi áferðir, lit og svip. 

Endurkoma sjöunda áratugarins

Sjöundi áratugurinn mun finna sér nýtt líf í haust. Stíllinn er afslappaður en skemmtilegur með náttúrlegum efnum og jarðtóna litum sem lýsa frjálshyggju og bjartsýni sjöunda áratugarins. Þetta skemmtileg mix felur í sér fjölbreytta blöndu af áferð og mynstrum, eins og dýramynstri, loðnum teppum, formum, flauels húsgögnum og mjúkum brúnum á bæði húsgögnum og skrautmunum. Náttúruleg efni eins og reyr, korkur, handunnið keramik, macrame og fleira er að koma sterkt inn.  Hvað varðar liti þá eru dökkir jarðlitir, eins og dökkbrúnn, og dökkrauður alls ráðandi með mótvægi frá sinnepsgulum og appelsínugulum. Haustið snýst um að faðma að sér jarðneska og hlýja tóna. 

Flísar og mynstur

Flísar hafa lengi verið notaðar á svæðum sem verða fyrir miklu sliti eins og við vaska og inn á baðherbergjum. Alls konar litir og munstur munu færast í aukanna núna í haust. Skapandi mótíf og lagningarmynstur koma sterk inn enda geta flísar verið falleg listaverk ein og sér og umbreytt rými á áhrifaríkan hátt. 

Þegar kemur að því að leggja flísar eru þó nokkrar leiðir. Fiskbeinamynstur er til dæmis fyrir þá ævintýragjörnu meðan línulegt mynstur og ská á móti er aðeins hógværara. Önnur áhugaverð trend sem eru að koma aftur með krafti eru köflótt mynstur og tweed. Þar er aftur verið að leitast eftir þessari sumarhúsa/sveita stemningu. Blómamynstur með dökku ívafi og hlýjum tónum verða einnig áberandi. 

Burðarmynd / mynd af svefnherbergi eftir Nathan Van Egmond af Unsplash

Mynd af hillum í eldhúsi eftir Edgar Castrejon af Unsplash

Mynd af flísum í eldhúsi eftir Toa Heftiba af Unsplash


Aðrar færslur