Stórar eignir hafa hækkað mjög mikið síðustu 2 ár. Þetta eru eignirnar sem eru síðastar til taka út hækkun en líka fyrstu eignirnar sem hætta að hækka og stoppa. Skýringin er einföld. Því dýrari sem þær verða því minni verður kaupendahópurinn sem ræður við að kaupa eignirnar. Vextir eru að hækka og þar með verður erfiðara fyrir kaupendur að standast greiðslumat.
Margir eiga stór skuldlaus hús sem eru samt með íþyngjandi rekstrarkostnað. Það væri því tilvalið að selja stóra húsið og kaupa jafnvel tvær eignir. Eina til að búa í og eina til að leigja út. Þannig að í staðinn fyrir að hafa nokkur tóm herbergi í húsinu sem þarf að viðhalda og greiða af, hvers vegna ekki hafa þessi herbergi í annari eign sem greiðir fyrir ferðalögin sem þig hefur alltaf langað í.
Mörgum vex það í augum að þurfa að leysa þetta tvennt. Á núverandi markaði er erfitt að kaupa og setja fyrirvara um að eiga eftir að selja stórt og dýrt hús. Það er yfirleitt einhver að keppa við þig sem er búinn að selja eða þarf ekki að selja.Í staðinn fyrir að gera fyrirvara um sölu væri hægt að selja sitt hús fyrst og biðja um langan afhendingartíma, ekki óalgengt að fara í allt að sex mánuði. Svo má skoða aðra möguleika í stöðunni. Eigið þið annað húsnæði sem er hægt að dvelja í tímabundið t.d. í sumarhús, gætuð þið hugsað ykkur að fara í tímabundna leigu eða hafið þið hreinlega tök á því að vera erlendis í nokkra mánuði á meðan beðið er eftir réttu eigninni.
Fyrir fólk sem vill alls ekki selja fyrst og nær ekki að kaupa án þess að vera búið að selja þá eru eignaskipti leið sem er þess virði að skoða. Þá er eignin þín sett á sölu með textanum að óskað sé eftir skiptum á minni eign. Þessi leið gengur helst ef fólk vill halda sig í hverfinu. Það eru t.d. litlar líkur ef þú vilt fara í nýbyggingu sem er jafnvel stíluð á ákveðinn aldur að einhver sem á þess háttar eign vilji skipta á stóru sérbýli.
Það er mikil vöntun á sérbýlum og seljendur eru að fá mjög hátt verð fyrir sínar eignir. Síðustu 2 ár hafa verðin hækkað gríðarlega mikið. Margir kaupendur ráða því ekki við að kaupa draumahúsið. Það hefur því aldrei verið betri tími til að selja eignir sem þarfnast viðhalds. Kaupendur sjá sér leik á borði að tryggja sér sérbýli á lægra verði og hafa tækifæri á að gera það að sínu og sjaldan hafa kaupendur verið tilbúnir að fara í miklar framkvæmdir en akkúrat núna.
Það er dagurinn sem viðhaldið hættir að vera gaman og verður að kvöð. Dagurinn sem pallurinn breytist í ferlíki sem þarf að bera á. Dagurinn sem þig langar að eyða tímanum í eitthvað annað en að laga þakkantinn. Flestir minnka við sig 10-15 árum of seint og eru að eyða tíma og peningum í að viðhalda eignum sem eru kannski bara notaðar 40%. Það er dýrt að greiða af ónotuðum fermetrum og hægt að gera svo margt annað við tímann en að þurrka af í ónotuðum svefnherbergjum.
Í dag eru margir að velta fyrir sér hvernig er hægt að selja sérbýlið sitt og kaupa nýtt en samt losa pening til að njóta lífsins. Nýbyggingar í dag eru mjög dýrar og í mörgum tilfellum dugar ekki andvirði hússins til að kaupa nýja lúxusíbúð. Það eru til aðrar leiðir og oft getur verið skynsamlegra að skoða nýlegar eignir, t.d. 10 ára gamlar eignir sem eru ekki komnar á viðhaldstíma en verðmunurinn á þeim og nýbyggingu getur verið jafnvel tugir milljóna króna.
asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402