fimmtudagur 21.04.2022

Ætlar þú að smíða pall í sumar?

Fallegur sólpallur getur gert mikið fyrir eignina þína, bæði útlitslega séð og sem framlenging á húsið. Pallar geta einnig stækkað garðinn og breytt honum í paradís þar sem fjölskyldan nýtur útiverunnar saman og eykur notagildi hans svo um munar.

Fyrstu skref

Áður en hafist er handa skiptir miklu máli að vera með gott skipulag, því að smíða pall eru jú framkvæmdir. Gott er að vera búin að fara nokkrar umferðir í hugmyndavinnu og skissa hugmyndir á blað. Flest sveitarfélög eru með byggingarvef þar sem hægt er að nálgast grunnteikningar hússins sem hægt að fá afrit af til að teikna út frá. Yfirleitt eru þessar teikningar í mælikvarðanum 1:100 og þá samsvarar 1 cm á teikningu 1m úti í garði. 

Því næst er gott að setja upp gróflega raunstærð með því að reka niður hæla og afmarka svæðið með snæri. Þannig færð þú góða hugmynd um hversu stóran pall þig langar í og hvar þú vilt hafa hann. 

Hönnun & kostnaðaráætlun

Pallaframkvæmdum fylgir yfirleitt fyrst ákvörðunartaka um hvort hönnun og framkvæmd verði í þínum eigin höndum eða hvort láta eigi sérfræðinga um málið. Ef verkið er látið í hendur sérfræðings er best að hafa samband við fyrirtækin og einfaldlega  fá tilboð í verkið. Oft er gott að fjárfesta í arkitekt til að teikna en sjá sjálf um smíðaverkið. Því næst  mælum við með því að gera góða kostnaðaráætlun og þá koma sólpallareiknivélarnar að góðum notum eins og þessar hér:  

Byko Sólpallareiknivél

Húsasmiðjan Sólpallareiknivél

Þar er hægt að fylla inn stærð og efni og dæmið svo reiknað fyrir þig með inniföldum öllum auka byggingarefnum sem til þarf. Sem er algjör snilld!

Flestir vilja hafa skjólvegg og/eða girðingu á pallinum og er einnig hægt að reikna efniskostnaðinn við það hér: 

Byko girðingareiknivél

Annar efniskostnaður sem þarf að hafa með í hönnun og kostnaðaráætlun eru lagnir en þær fara yfirleitt undir pallinn. T.d. lagnir fyrir ljós eða jafnvel heitan pott. Mjög mikilvægt að gera ráð fyrir því áður en hafist er handa! 

Hvaða pallaefni á ég að velja?

Pallurinn er staðurinn sem þú ætlar að njóta! En auðvitað fylgir þessu ákveðið viðhald. Það er því yfirleitt stór faktor hversu mikið viðhald fylgir klæðningunni þegar velja skal pallaefni.

Fura

Fura er eitt það vinsælasta og líklega það pallaefni sem hefur verið hvað lengst í umferð. Íslenskt veðurfar er margbreytilegt og veðuraðstæður oft erfiðar en furan virðist höndla það vel og er einnig auðvelt að vinna með hana. Furan er gagnvarin sem þýðir að timbrið er meðhöndlað með söltum en það á að auka mótstöðu þess gegn lífrænum efnum og lífverum, eins og td. fúasvepp og skordýrum. Furan er líka ódýr og hentar vel fyrir þá sem ætla að smíða sjálfir. Það er vegna þess að furan er mjúk og ekki þarf sérstök verkfæri til að saga, bora eða snara fyrir skrúfuhausum. Að lokum drekkur furan líka vel í sig olíu sem borin er á og hægt að leika sér með liti. 

Lerki

Lerki er einstaklega sterkt byggingarefni og hefur m.a verið notað til þess að byggja hús og sem undirstöður í járnbrautir og skip. Styrkleikinn er mikill og endingartíminn langur en það kemur til þess hversu hægvaxið það er sem myndar mikinn þéttleika. Enda er lerki oft kallaður harðviður, þrátt fyrir að vera mjúkt. Mikill kostur er að hann býr yfir náttúrulegri fúavörn. Hins vegar gránar yfirborð lerkis með tímanum og hefur staðsetning pallsins mikil áhrif á veðrunina. Ef lerki er í góðu skjóli frá sól og rigningu getur það staðið án viðhalds í mörg ár. Ef pallur er opinn fyrir sól, veðri og vindum, sem er þá í flestum tilfellum hér á Íslandi að þá þarf árlegt viðhald til þess að halda í upprunalegu útliti hans. Margir velja sér þó að sleppa öllu viðhaldi og leyfa gráa litnum að koma náttúrulega. 

Kebony

Kebony (fura) er hitameðhöndlað með lífrænum efnum og fær því þennan meðaldökkbrúna lit. Þessi skemmtilega tegund er einnig með náttúrulega fúavörn og því ekkert viðhald sem fylgir. Efnið kemur annað hvort með rásum eða sléttheflað. Kebony pallaefni er svansvottað og hefur gott slitsterkt yfirborð.

Bangkirai

Bangkirai harðviður er sterkur enda þéttleikinn mikill. Hann er hins vegar alltaf dýrari kostur. Liturinn er koníaksrauður og fallegur og endist vel. 

Framkvæmdir

Smíðaverkið sjálft krefst ýmissa tækja og tóla sem ekki allir eiga til. Það er því góð lausn að heyra í vinum og vandamönnum áður en fjárfest er í dýrum tækjum. Ef það klikkar  þá eru Byko og Húsasmiðjan með áhaldaleigu sem er gott að nýta sér. 

Húsasmiðjan Áhaldaleiga

Byko Áhaldaleiga

Þá komum við að undirstöðum en það skiptir miklu máli að vanda vel til verksins þar. Grafa þarf niður fyrir neðan frostmark og jafna jarðveginn vel út. Síðan eru grafnar holur til þessa að steypa undirstöður fyrir dregara. Í þessu ferli er einnig lagt út fyrir lögnum ef það var ákveðið í upphafi að hafa rafmagn fyrir ljós eða lagnir fyrir heitan pott. 

Gott er að setja þunnt lag af sandi sem efsta lag og setja svo jarðvegsdúk til að koma í veg fyrir gróðurmyndun. Að lokum skiptir miklu máli að nota ryðfríar skrúfur eða nagla til að festa allt niður!

Pallur tilbúinn - Nú er það að njóta!

Þegar pallurinn er loksins tilbúinn tekur við annað skemmtileg ferli, sem er að gera pallinn að þínum og er í raun efni í annað blogg. 

Ef lagðar voru lagnir fyrir lýsingu mælum við með því að gefa sér góðan tíma til þess að velja réttu ljósin fyrir lýsinguna sem þú vilt. 

Nauðsynleg húsgögn á pallinn eru meðal annars stórt og gott borð til þess að geta fært matarboðið út þegar það viðrar vel. Sólbekkur er einnig nauðsynlegur til þess að njóta sólarinnar þegar hún loks mætir. Ekki má gleyma grillstöðinni, en þá skiptir máli að vera nálægt hurðinni sem gengið er inn í til að vera með gott aðgengi að eldhúsi og einnig er gott að hafa í huga hvar er besta skjólið. Toppurinn á tilverunni er svo auðvitað heiti potturinn en þá skiptir máli að vera með gott skjól og góðar tröppur.

Það er svo sannarlega hægt að margfalda notagildi garðsins á eigninni þinni með góðum palli!


Aðrar færslur