mánudagur 22.05.2023

Er hægt að taka jörð úr landbúnaðarnotum?

Er hægt að taka jörð úr landbúnaðarnotum?

Á Íslandi er meirihluti landsins óbyggður og þéttbýlissvæði talsvert minni en önnur landsvæði. Jarðir eru stór hluti landsins og hafa þær eins og aðrir fasteignir gengið kaupum og sölum í gegnum tíðina. Á síðari árum hefur orðið æ algengara að jarðir séu keyptar en ekki nýttar til landbúnaðar eins og áður. Uppbygging ferðaþjónustu hefur vaxið sem og aukin eftirspurn eftir sumarbústaða- og frístundasvæðum.  

En er alltaf hægt að taka jörð úr landbúnaðarnotum? 

Núgildandi jarðalög eru frá árinu 2004 en þeim hefur þó verið breytt nokkuð frá þeim tíma. Umsýsla í kringum jarðir hefur verið flókin og þurfti lengi vel aðkomu ráðherra til að losa jörð úr landbúnaðarnotum. Með lagabreytingu frá árinu 2021 var þetta ferli einfaldað til muna þó áfram sé gætt að því að landbúnaðarsvæði sé verndað. 

Er hægt að breyta jörð í sumarhúsasvæði, stofna verksmiðju, hefja ferðaþjónustu eða nýta vindorku? Um skilyrði þess að land sé leyst úr landbúnaðarnotum er fjallað í 5. gr. jarðalaga. Þar kemur fram að sveitarstjórn tekur ákvörðun um breytingar á landnotkun á grundvelli heildstæðs mats samkvæmt skipulagsáætlun og þeirra sjónarmiða sem greinir í ákvæðinu. Það sem mestu máli skiptir við matið er t.d. hvort landið sé stærra en þörf krefur með tilliti til nýtingaráforma, hvort önnur staðsetning sé heppilegri sem henti síður til landbúnaðar, hver áhrif breyttrar landnotkunar hefur á aðliggjandi landbúnaðarsvæði og hvort girt verði með nýtingaráformum fyrir möguleg búrekstrarnot af landinu í framtíðinni. Kaupandi eða seljandi jarðar ræður því ekki hvort breyting á nýtingu lands sé heimil en getur mögulega haft áhrif á það með því að rökstyðja mál sitt fyrir sveitarstjórn með tilliti til þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin. 

Við kaup og sölu á jörð þarf því að hafa framangreind skilyrði í huga þegar skoðað er í hvaða tilgangi jörðin er keypt. 


Kristín María Gunnarsdóttir
Aðstoðarmaður löggilts fasteignasala

kristin@husaskjol.is - Sími: 659-6075Aðrar færslur