Þegar ég keypti mína fyrstu fasteign 1996 var þetta mjög einfalt. Þú gast valið um að taka 40 ára verðtryggt húsnæðislán hjá Íbúðalánasjóði. Líklega var hægt að taka lán hjá lífeyrissjóðum en ég átti ekki réttindi þar enda að klára háskóla þegar ég keypti mína fyrstu íbúð.
Í dag er hægt að velja um ótrúlega margar og mismunandi lánaafurðir, þú getur valið um breytilega eða fasta vexti, óverðtryggða, verðtryggða eða blandað lán og mjög mikilvægt, þú getur valið um mislöng lán.
Hvort sem þú ert að taka ný íbúðalán eða stendur frammi fyrir því að lágu vextirnir sem þú festir fyrir 2 árum séu að losna þá skiptir sköpum að gefa sér góðan tíma til að ákveða hvernig lán þú vilt taka. Mismunandi fólk hefur mismunandi þarfir. Ég myndi alltaf byrja á því að fara inn á www.aurbjorg.is og bera saman lánaafurðir.
Ég ákvað að fara í smá rannsóknarvinnu og kíkti á lánareiknivél Arionbanka.
Greiðslubyrði 40 ára óverðtryggðs láns með fasta vexti í 3 ár er 293.367 og heildarendurgreiðslubyrði lánsins er 140.816.456 milljónir. Þetta eru 8,5% fastir vextir til 3ja ára.
Greiðslubyrði 25 ára verðtryggðs láns er 191.470 kr á mánuði og heildarendurgreiðslubyrði lánsins er 220.215.937 milljónir eða tæpum 80.000.000 hærri en óverðtryggða lánsins. Þetta eru 2,94% fastir vextir til 5 ára og áætluð verðbólga er 9,6%
Hins vegar ef ég stytti verðtryggða lánið í sömu greiðslubyrði og óverðtryggða lánið þá verður það til 14 ára og heildarendurgreiðslubyrðin verður 99.686.638 eða rúmum 41.000.000 lægri en óverðtryggða lánið.
Ég er ekki fjármálaráðgjafi en ég mæli alltaf með því að gefa ykkur góðan tíma til að velja lánaafurð sem hentar ykkar þörfum. Mikilvægt er líka að nýta sér öll úrræði sem eru í boði s.s. að vera með séreignasparnað og greiða hann inn á lánið. Einnig er hægt að spara háar upphæðir í heildarendurgreiðslu lánsins með því að greiða alltaf inn á höfuðstól lánsins í hverjum mánuði ef tök eru á.
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402