fimmtudagur 27.03.2025

Skiptir greiðsluflæðið máli?

Greiðsluflæðið í tilboðum skiptir höfuðmáli og gott greiðsluflæði er lykillinn að því að fasteignaviðskipti gangi snuðrulaust fyrir sig. Greiðslurnar verða alltaf að vera þannig að seljandinn geti tekið tilboðinu og keypt aðra eign. Oft vilja kaupendur setja lítið við kaupsamning, setja svo lánið og megnið af peningagreiðslunni við afhendingu. Þetta gengur ekki upp þar sem þá þarf seljandinn að taka tímabundið lán til að geta keypt næstu eign. Ef þetta er lítil eign, svona dæmigerð fyrstu kaup eign þá væri hefðbundið greiðsluflæði þannig að megnið af peningum kemur við kaupsamning sem og nýtt lán.

Ef kaupandinn ætlar að nýta séreignasparnað þá myndi hann koma við afsal þar sem hann fæst ekki greiddur út fyrr en kaupandinn er kominn með þinglýstan kaupsamning. Dæmi: 50.000.000 með 85% láni, þá myndu koma 6.500.000 í peningum við kaupsamning og nýtt lán upp á 85% og svo kæmi 1.000.000 viðafsal, 2 mánuðum eftir afhendingu. Ef kaupandinn getur alls ekki greitt þetta svona, stundum eru peningar bundnir á lokuðum reikningum þá þarf að setja þessar greiðslur eigi síðar en mánuði fyrir afhendingu.

Hvers vegna er það, jú það er vegna þess að seljandinn fær alltaf afhent áður en hann afhendir og ef þetta eru margar eignir í keðju þá þurfa greiðslurnar að berast fyrir afhendingar á hinum eignunum þannig að einhver seljandi sitji ekki uppi með að þurfa að afhenda eign án þess að vera búinn að fá afhendingar greiðsluna eða að hans kaupandi þurfi að taka dýrt skammtímalán til að geta fengið sína eign afhenda.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is - Sími: 863 0402



Aðrar færslur