fimmtudagur 07.12.2023

Hvað er núllta veð eða lögveð?

Núllta veð er veðréttur sem myndast á undan öðrum veðum þegar íbúð fer á uppboð. Á veðbók koma fram öll veð sem og allar kvaðir sem hvíla á eigninni. Þar geta verið lán, eitt eða fleiri og eru þau með ákveðinn veðrétt sem þýðir að lánið á 1.veðrétti er best fyrir skuldareiganda og svo koll af kolli.

Ef íbúðareigandi er t.d. að endurfjármagna lán þá getur þurft að fá leyfi frá þeirri fjármálastofnun sem á lánið á 1. veðrétti að setja nýtt lán á undan og sama gerist við sölu á fasteign þá þurfa lán kaupanda að fara á undan lánum seljanda og þá er fengið leyfi, s.k. skilyrt veðleyfi til að setja ný lán kaupanda á undan lánum seljanda gegn því skilyrði að lán seljanda verði annað hvort greidd upp eða flutt.

Hins vegar þegar eign er seld á uppboði þá geta verið allskonar skuldir sem hvíla ekki á íbúðinni og sumar af þessum skuldum er lögveð sem hafa forgang framyfir aðrar skuldir á eigninni þ.m.t íbúðarlán á 1. Veðrétti og því kallast þetta oft núllta veð þar sem 1. Veðréttur er frátekinn.

Það sem fellur undir lögveð eða núllta veð eru fasteignagjöld, fráveitugjöld, brunatryggingar og húsgjöld. Það þarf að passa að lýsa kröfu innan frestsins þannig að það tapist ekki réttur. Ef það gleymist getur staðan verið sú að húsfélagið fái ekki greitt upp í skuldina. Húsfélag getur einnig lýst kröfu í íbúð ef eigandi hefur ekki staðið í skilum í lengri tíma og þannig krafist uppboðs rétt eins og allir aðrir kröfuhafar.

 

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur