fimmtudagur 31.08.2023

Hvað er kaupsamningur?

Kaupsamningur er haldinn þegar búið er að uppfylla alla fyrirvara í kauptilboði. Það getur verið allur gangur á því hversu langt er frá kauptilboði til kaupsamnings. Ef þetta eru keðjusölur þá geta verið 2-3 mánuðir frá því að fyrsta tilboðið er undirritað þar sem farið er í kaupsamning. Ef þetta er stök eign og kaupandi er jafnvel tilbúinn með greiðslumat er yfirleitt bókað í kaupsamning innan 2ja vikna.

Kaupsamningur á að endurspegla kauptilboðið og það er ekki hægt að gera breytingar á tilboðinu einhliða heldur verða báðir aðilar að samþykkja allar slíkar breytingar.

Í keðjusölum er mjög algengt að það þurfi að gera breytingar á greiðslutilhögun til að allar sölurnar gangi upp en ef þetta er stök eign þá þarf allt að standast eins og stafur á bók.

Þegar kaupandi mætir í kaupsamning þarf hann að passa að hann hafi nægar heimildir til að millifæra kaupsamningsgreiðsluna og kostnaðinn við kaupin. Það þarf að passa upp á stórgreiðslumörkin og að millifæra fyrir kl. 16:00. Yfirleitt er þægilegast að millifæra alla greiðsluna inn á vörslureikning fasteignasölunnar sem sér svo um að greiða áfram inn á seljanda eftir að búið er að undirrita kaupsamninginn.

Kaupsamningurinn fer síðan í þinglýsingu strax eftir kaupsamningsfund og það er gífurlega mikilvægt að passa það þar sem ef seljandi er t.d. í fjárhagsvandræðum er ekki hægt að þinglýsa fjárnámi á eignina ef það er kominn þinglýstur kaupsamningur. Þess vegna verður kaupandi alltaf að greiða þinglýsingarkostnaðinn samhliða kaupsamningi þannig að það sé hægt að gæta hans hagsmuna að fullu.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur