fimmtudagur 26.09.2024

Hvernig virka greiðslur í eignakeðjum?

Eignakeðjur geta oft verið mjög flóknar. Þetta eru jafnvel 6 eignir sem eru til sölu hjá 6 mismunandi fasteignasölum og í 3 tilfellum vill fólk flytja lán og stundum er verið að flytja lán af eign yfir á eign þar sem seljandinn ætlar líka að flytja lánið af og til að flækja þetta ennþá meira þá eru þetta jafnvel 10-15 mismunandi lánastofnanir sem koma að málinu og sem aukabónus þá eru flestar sölurnar með fyrirvara um að einhver önnur eign seljist og því ekki hægt að vita hvernig greiðslur munu í raun og veru berast fyrr en búið er að selja síðustu eignina í keðjunni.

Það er því mikilvægt að allir séu upplýstir um að eitthvað kann að breytast í ferlinu. Við þurfum samt alltaf að festa einhverja kaupsamnings greiðslu og því dýrari sem eignin er því hærri verður talan eðlilega. Flestir eru með sitt eigið fé bundið í eigninni sem þeir eru að selja og því erum við að gera ráð fyrir því að kaupsamnings greiðslan sé að koma út úr sölu á eign kaupanda. Þegar boðað er í kaupsamning þá er byrjað á síðustu eigninni sem seldist og svo ráðstafast peningar áfram í keðjuna.

Það er því mikilvægt að fá megnið af greiðslunum viðkaupsamning. Margir vilja setja nýtt lán við afhendingu.

Það gengur yfirleitt ekki upp þar sem þinn seljandi þarf að fá afhent áður en hann afhendir og ef hann fær lán kaupandans greitt við afhendingu þá getur hann ekki greitt neitt fyrr en eftir sína afhendingu og ef þetta eru t.d. 4 eignir sem koma á eftir og þær eru alltaf afhentar með 10 daga millibili þá myndi það þýða að síðasti seljandinn fengi ekki greitt fyrr en 40 dögum eftir sína afhendingu. Þess vegna mæli ég með því að setja lánið við kaupsamning, það gerir þitt tilboð mun sterkara og keðjurnar ganga upp.

Stundum fæ ég svarið, mér er alveg sama um keðjuna, ég er bara að hugsa um mín kaup, auðvitað en ef seljandinn getur ekki keypt áfram þá getur hann ekki heldur selt. Þannig að þegar kaupandinn á eftir að selja, þá er hefðbundið greiðsluflæði eitthvað svona.

Greitt við kaupsamning X krónur. Greitt með nýju láni X krónur. Greitt eins og greiðslur berast úr minni eign þó eigi síðar en X, greitt við afsal X krónur. Því meira eigið fé sem kaupandinn á í sinni eign því mikilvægara er að fá góða kaupsamnings greiðslu og lánið við kaupsamning þar sem seljandinn verður að hafa einhverjar greiðslur til að greiða áfram í sín kaup.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur