fimmtudagur 07.11.2024

Hver ber ábyrgð á að klára afsalið?

Stutta svarið er ef eignin er keypt í gegnum fasteignasala þá að sjálfsögðu ber hann ábyrgð á því að boða í afsal og klára málin. Þetta er miðað við að allt hafi gengið áfallalaust og enginn ágreiningur sé í gangi.

Ef það er ágreiningur milli kaupanda og seljanda þá getur fasteignasalinn ekki skikkað fólk í afsal, eða eins og einn sagði við mig, Ásdís þú verður að fixa þetta, nei sko ég get ekki neytt kaupanda í afsal ef það er ágreiningur um galla eða seljandinn er ekki búinn að uppfylla sínar skyldur eins og t.d. að láta fara fram loka úttekt í nýbyggingu.

Á sama hátt get ég ekki skikkað seljanda í afsal ef kaupandinn er ekki búinn að uppfylla skyldur sínar eins og að greiða allar greiðslur. Afsal er undirritað við lokagreiðslu. Afsal er lokauppgjör fasteignakaupa og þegar seljandinn gefur út afsal þá staðfestir hann að kaupandinn hefur staðið við kaupsamninginn og þegar kaupandinn skrifar undir afsal þá er hann að skrifa undir að ekkert sé ófrágengið.

Afsal er aldrei gefið út með fyrirvara. Það er ekki hægt að setja inn fyrirvara í afsal og ætla að leysa úr þeim síðar. Afsal er fyrirvaralaust. Það er gífurlega mikilvægt að klára afsalið þar sem þrátt fyrir að kaupandinn eignist íbúðina við kaupsamning þá eru kaupandi og seljandi samt meðeigendur fram að afsali þar sem þú þarft að vera afsalshafi til að geta sett ný lán á eignina eða endurfjármagnað eldri lán og einnig getur þú ekki selt eignina aftur nema vera afsalshafi.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur