fimmtudagur 12.09.2024

Hver ber ábyrgð á húsnæðisskortinum?

Ég var á mjög áhugaverðum fundi um daginn um húsnæðismarkaðinn og hvað sé til ráða. Þar kom m.a. fram að 2015 gáfu samtök sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu út ítarlega skýrslu þar sem m.a. var fjallað um fólksfjölgunarþróun á höfuðborgarsvæðinu og talið var að á árunum 2012-2025 yrði fólksfjölgun 30 þúsund.

Í dag vitum við að sú spá var vanmetin um 20 þúsund manns eða sem nemur 8-10 þúsund íbúðum. Það vöknuðu ansi margar spurningar hjá mér. Hvenær kom þetta í ljós? Hver uppfærði excelskjalið og hver átti að grípa boltann? eða var það bara þannig að einhver vissi að spáin var röng og fannst óþarfi að nefna þetta?

Það er nefnilega pínu seint að fara að redda þessu núna þegar það tekur 4-5 ár frá því að lóð er úthlutað þar til hægt er að flytja inn í íbúðina.

Þetta minnti mig á þegar ég datt á hjóli fyrir nokkrum árum og fór á slysó. Mér var skellt í röngten og samkvæmt lækninum þá sýndi röngten brot og frekar slæmt þannig að ég var gifsuð frá úlniði upp í öxl. 2 vikum seinna fór ég til að láta taka af mér gifsið, það fyrsta sem læknirinn sagði var: “nei sko, þú ert ekki brotin”. Þegar gleðivíman var farin af mér sótti ég sjúkraskrána. Á sunnudegi var ég brotin, á mánudegi skoðaði röngten læknirinn myndirnar og þá kom í ljós að ég var ekki brotin. Hins vegar virtist ekki vera neitt ferli á Landspítalanum sem greip svona frávik þannig að ég var bara höfð í gifsi upp á djók í 2 vikur.

Í kjölfarið sendi ég kvörtun á Landlækni. Ekki til að fá bætur heldur til að reyna að bæta ferlið. Tæpu ári síðan fékk ég póst að ég hefði notað rangt eyðublað og þyrfti að senda kvörtunina inn aftur.

Þannig upplifi ég öll þessi úrræði með húsnæðismarkaðinn. Það eru til óendanlegir stýrihópar,nefndir, ráð, skýrslur og allskonar frábær gröf og skýringar myndir. Það eina sem virðist ekki vera til er heildaryfirsýn og einhver sem ber ábyrgð á því að láta hlutina ganga upp.

Þetta er eins og að vera fastur í grínþætti hjá Fóstbræðrum og því vaknar þessi spurning. Hver á að laga bankið í ofninum, á ég að gera það, átt þú að gera það eða á Indriði sjálfur að gera það?

Mér finnst kominn tími á að allir taki höndum saman um að búa til alvöru heildarlausn, ekki skýrslur, ekki nefndir, ekki plástra, skammtímalausnir eða skítareddingar.

Hvað finnst þér? Hver á að laga bankið í ofninum, essasú?

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur