fimmtudagur 04.04.2024

Hvenær þarf að ákveða afhendingardag?

Það er ótrúlega algengt að það standi samkomulag fyrir afhendingu. Ég mæli aldrei með því þar sem þá þurfa aðilar að ná samkomulagi um afhendingu eftir kaupsamning. Þá getur komið upp allskonar ágreiningur. Það gæti t.d. hentað mér mjög vel að afhenda 15.júlí en þá ert þú farin í sumarfrí og vilt ekki fá afhent fyrr en 5. ágúst. Það á að greiða 20.000.000 við afhendingu og þá þarf einhvern veginn að brúa bilið með greiðslur, t.d. með dýru skammtímaláni frá banka.

Með því að festa niður 5. ágúst við kaup tilboðsgerð þá vita allir aðilar hvenær eignin verður afhent og geta gert önnur plön í samræmi við það. Hins vegar getur það verið mjög vont að festa niður afhendingardag þegar kaupandinn á eftir að selja. Mjög oft lendum við í löngum keðjum og með því að festa niður afhendingardag þá eru stundum bara nokkrar vikur í það að það þurfi að afhenda fyrstu eignina og það er ekki ennþá búið að halda kaupsamning.

Þegar kaupandinn á eftir að selja eign og seljandinn jafnvel eftir að finna sér eign þá mæli ég með því að setja niður að afhendingin sé X tíma eftir kaupsamning. Mjög algengt er þegar seljandi á eftir að kaupa að setja niður 3 mánuðum eftir kaupsamning eða fyrr. Þá getur seljandinn verið rólegur með að finna réttu eignina og hefur nægan tíma til að afhenda sína. Annars getur hann lent í tíma pressu með að kaupa nýja eign og þarf jafnvel að fara fram á mjög stuttan afhendingartíma á næstu eign.

Þannig að ég myndi aldrei setja inn samkomulag í afhendingartíma í kauptilboði. Það er langbest að setja niður fastan afhendingartíma nema seljandinn eigi eftir að kaupa þá að setja niður x mánuði frá kaupsamningi eða fyrr. Eða fyrr þýðir að ef seljandinn finnur eign hratt og vel og hún er jafnvel tóm þá er hægt að afhenda allar eignir í keðjunni fyrr en það þýðir líka að það er enginn skuldbundinn til að afhenda fyrr nema það henti öllum.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur