Ég fékk þessa spurningu persónulega um daginn og ég hugsaði við hvaða dagsetningu er verið að miða? Er það dagurinn sem ég hætti í sambandi eða er það dagurinn sem ég ákvað að fara og finna mér maka? Það er í raun engin leið fyrir neinn að sannreyna þessa dagsetningu og ég get sagt hvað sem er. Þetta á ekki við um fasteignir.
Fyrir mörgum árum þá var hægt að uppfæra eignir á netinu og þær komu inn sem nýjar og það var engin rekjanleiki.
Í dag er hægt að fara t.d. inn á Fastinn og þá sérðu alla sögu eignarinnar. Þú sérð hvenær hún kom fyrst inn á markaðinn, þú sérð hvort að hún var sett í pásu. Þú sérð á hvaða verði hún var fyrst sett á markað og hvort að það hafi átt sér einhverjar verðbreytingar. Þú getur farið inn á www.verdsaga.is og séð á hvað hún seldist síðast og framreiknað hvers virði hún ætti að vera í dag miðað við síðasta söluverð. Þess vegna hefur í raun aldrei verið mikilvægara að koma inn á réttu verði en akkúrat í dag.
Ef það þarf að gera verðbreytingar á fasteign þá er vænlegra að gera færri breytingar og stærri þar sem kaupendur eru með þetta allt á hreinu og þeim finnst örar verðlækkanir benda til þess að líklega væri hægt að undirbjóða eignina meira en efni standa til. Flestir kaupendur í dag eru búnir að gera heimavinnuna sína og grandskoða eignina sem þeir hafa áhuga á að bjóða í. Þeir vita á hvað hún var skráð í upphafi, hversu oft hún hefur verið lækkuð og á hvað hún seldist síðast.
Oft verðskuldar eign að vera á hærra verði en aðrar þar sem seljendur hafa farið í miklar endurbætur. Í þannig tilfellum er það lykilatriði að fasteignasalinn geti rökstutt verðlagningu fasteignar með gögnum.
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402