föstudagur 30.06.2023

Hvað þarf að passa þegar eign er keypt með öðrum?

Það er mjög algengt að aðilar kaupi saman fasteign. Algengasta formið er par kaupi saman en það er líka ansi algengt að foreldrar kaupi með börnum, systkini kaupi saman og jafnvel vinir.

Það sem skiptir höfuðmáli hérna er að passa að eignarhlutur allra sé rétt skráður og það sé settur upp útgöngusamningur áður en gengið er til kaupsamnings.

Mjög oft er fólk að blanda tilfinningum inn í fasteignakaupin. Ef par er að kaupa saman og annar aðilinn kemur með megnið af útborgun er mikilvægt að skoða hvernig eignarhlutfall á að vera. Oft er þetta nýtt samband þar sem annar aðilinn hefur jafnvel átt fasteign fyrir og á megnið af eigið fé. Það er ansi auðvelt að setja eignina bara 50% 50% í mesta ástarbrímanum og svo ef sambandið gengur ekki upp þá á aðilinn sem kom með lítið inn í kaupin allt í einu helminginn af þínu eigin fé.

Ef tengdir aðilar kaupa saman sem eru ekki par þá myndi ég alltaf byrja á því að setja upp slitasamning og í raun getur það líka verið sniðugt ef ógift par kaupir saman. Í honum er hægt að setja inn ýmsa skilmála.

Hvað ef annar aðilinn vill selja, getur hinn þá neitað og sá sem vill selja er fastur með eign sem hann vill ekki og jafnvel með aðila sem hann vill ekki lengur umgangast.

Ef annar aðilinn vill kaupa hinn út á hvaða verði er verið að kaupa. Er verið að kaupa á markaðsvirði í dag eða tökum við X hækkun sem hefur átt sér stað á markaði. Það getur oft verið óhagstætt að kaupa út ef verð hefur hækkað óvenjumikið síðustu mánuði.

Ef systkini kaupa saman dugar þá einfaldur meirihluti til að selja eða verða allir að vera sáttir. Að setja upp plan hvernig á að fara út úr fasteignaviðskiptum ef fólk verður ósátt getur sparað gífurlegan tíma, peninga og komið í veg fyrir mikil leiðindi í framtíðinni. Kannski ekki rómantískt þegar fólk er að byrja sambúð en sannarlega praktískt.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur