Kauptilboð er ígildi kaupsamings og það er því lykilatriði að það sé rétt upp sett og allir skilmálar sem skipta máli komi fram. Undirritað kauptilboð er bindandi og það er t.d. hægt að þinglýsa því til að tryggja hagsmuni.
Það er því gífurlega mikilvægt að taka allt fram sem skiptir kaupanda og/eða seljanda máli.
Kaupverð, greiðsluskilmálar, afhendingardagssetning og fyrirvarar þurfa að vera á hreinu áður en skrifað er undir.
Ef kaupandi lofar að greiða 10.000.000 við undirritun kaupsamnings þá getur hann ekki breytt því einhliða í 5.000.000. Ef afhendingin á að vera 1.desember þá getur seljandinn ekki ákveðið að afhenda frekar í febrúar þar sem það henti honum betur.
Ef kaupandi eða seljandi gleyma að setja inn fyrirvara, s.s. um sölu á eign eða ástandsskoðun þá er of seint að skella þeim inn ef báðir aðilar hafa samþykkt tilboðið.
Það er mjög mikilvægt að virða gildistíma tilboðs. Ef tilboðið gildir til 17:00 þá er of seint að taka afstöðu til þess kl. 17:15 þar sem tilboðið er einfaldlega runnið út og þar með fallið niður og þá þarf að gera nýtt tilboð.
Ég myndi alltaf mæla með því að setja fram sínar ítrustu kröfur í fyrsta tilboði og síðan má alltaf gera gagntilboð ef þarf. Það er hins vegar erfitt að biðja um ísskáp og uppþvottavél þegar búið er að samþykkja tilboðið.
Kauptilboð er bindandi og það er því ekki hægt að hætta bara við að klára kaupin án ástæðu. Kaupendur þurfa að sýna fram á að þeir fái t.d. ekki greiðslumat með yfirlýsingu frá banka. Það er ekki nóg að senda póst og segjast ekki geta keypt íbúð. Báðir aðilar geta skapað sér skaðabótaskyldu ef þeir ákveða að hætta við kaup eða sölu án ástæðu.
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402