fimmtudagur 02.01.2025

Hirðir makinn af þér eignina?

Ég sá spurningu um daginn þar sem viðkomandi velti því fyrir sér hvernig ætti að reikna út hvernig eignarhlutfall breytist með hverri innborgun þegar bara annar aðilinn í sambandinu greiðir inn á lánið. Þarna var skýrt tekið fram að þetta væri par. Í alvöru talað hvernig ætlar par að láta það ganga upp?

Ef annar aðilinn er tekjuhærri þá er ekkert óeðlilegt að hann greiði inn á lánið. Ég velti því fyrir mér hvort að fólk hugsi þetta alla leið. Ætlið þið að setja lífið í excel? Skrá niður hverja krónu sem þið greiðið og skuldajafna svo um mánaðarmót. Hvað ef það eru börn í spilinu og annað sækir oftar en hitt? Fær það þá greiddan leigubílataxa fyrir allt skutlið? Hvað ef sami aðili verslar oftar í matinn, er greitt aukalega fyrir þá vinnu? Leggið þið örugglega nákvæmlega jafnmargar mínútur inn í heimilisstörfin og ef ekki verður það þá líka gert upp í krónum og aurum um hver mánaðarmót?

Hversu langt á aðganga? Borðið þið jafn mikið eða viljið þið vigta matinn í hverri máltíð til að vita hvernig á að skipta matarinnkaupum? Er eðlilegt að skipta þeim 50% þegar annar borðar kannski 50% meira? Hvað ef annar fær hádegismat í vinnunni og það er dregið af laununum á meðan hinn gerir nesti sem er tekið af matarinnkaupum.

Þetta er ekkert flókið. Þegar par rekur heimili saman þá er ansi erfitt að reikna allt í krónum og aurum. Flækjustigið verður ennþá meira þegar börn bætast við. Á þá að greiða makanum sem gengur með barnið bónus fyrir þá vinnu? Hvað með fæðinguna, er greitt fyrir hana, hún getur tekið á og fær makinn þá bætur ef eitthvað klikkar í fæðingunni? Hvar ætlið þið að draga mörkin?

Íbúðalán eru bara einn hlutur af mörgum og það er aldrei hægt að reikna eingöngu fjárhagslegt framlag til heimilis og spá ekkert í annað. Á sambúðartímanum breytast hlutir, makinn sem var einu sinni tekjuhærri gæti misst vinnuna og hinn fær launahækkun og verður aðal fyrirvinna fjölskyldunnar.

Hvað ef íbúðaverð lækkar meðan annar er að greiða inn á lánið en hækkar á meðan hinn greiðir inn á lánið? Ef framlag til heimilis er eingöngu reiknað í krónum og aurum þá er stundum gott að líta inn á við og spyrja hvort að annar aðilinn búi við fjárhagslegt ofbeldi.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur