fimmtudagur 19.09.2024

Get ég borgað með veðflutningi?

Stutta svarið er nei. Veðflutningur er gamalt lán og það er bara einu sinni hægt að fá peninga í staðinn fyrir lán og það er þegar nýtt lán er tekið og bankinn greiðir út peninga. Það er hins vegar mjög algengur misskilningur að hægt sé að greiða með veðflutningi. Ég hef meira að segja haft virðulega eldri menn hreita í mig hvort að löggildingin mín hafi fengist úr seríospakka fyrst að ég skildi ekki svona einfaldan hlut.

Málið er að það er ekkert mál að flytja veð. Það er hægt að flytja veð yfir á aðra eign samhliða sölu og kaupum og ef seljandinn er ekki búinn að festa sér aðra eign þá er hægt að flytja veðið yfir á svokallað handveð sem er bankabók þannig að bankinn tekur veð í peningum og geymir lánið hjá sér í staðinn. Þegar veð er flutt þá verður seljandinn því að tryggja peningagreiðslur sem eru hærri en veðflutningurinn.

Hefðbundið ferli er að seljandinn festir sér eign. Nýtt lán hans kaupanda er svo greitt áfram til seljanda eignarinnar sem fyrri seljandinn er að kaupa. Svo eru allskonar skemmtilegar flækjur s.s. 5 eignakeðja og 4 eru að veðflytja lán yfir á næstu eign og þá þurfa allir fasteignasalarnir sem og lánastofnanirnar að vinna saman til að láta þetta ganga þar sem engin lánastofnun er til í að gefa eftir sinn veðrétt nema hafa tryggingu fyrir öruggum greiðslum í staðinn.

Þetta getur verið flókið en þetta gengur alltaf upp á endanum þó að það geti tekið á taugarnar hjá öllum í keðjunni hvað þetta ferli getur verið gífurlega tímafrekt. Það er hins vegar mjög mikilvægt að vera með á hreinu hvort að þú ætlar að setja nýtt lán á eignina eða veðflytja eldra lán. Nýtt lán kemur strax til útgreiðslu til þíns seljanda á meðan hann getur þurft að bíða í marga mánuði eftir greiðslum samhliða veðflutningi og það getur þýtt algeran forsendubrest í greiðslutilhögun.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur