Það er gífurlega algengt að fólk vilji fara í endurbætur áður en það setur á sölu til að auka verðmæti eignarinnar og selja á hærra verði.
Ég mæli alltaf með að fara í litlar endurbætur, t.d. festa parketlistana, laga leka kranann og mála vegginn sem börnin hafa notað í listsköpun síðustu árin. Ef parketið er ónýtt og þú getur lagt nýtt eins og fagmaður þá gæti það borgað sig. Hins vegar mæli ég alltaf gegn því að fara í dýrar framkvæmdir því þú veist aldrei hvert þær leiða. Ég segi alltaf, ég mæli ekki með því að opna Pandoruboxið.
Meginreglan er að þú færð aldrei framkvæmdir að fullu til baka, þú gætir því eytt 5 M í að taka baðið og gólfefnin í gegn og selur á 4 M hærraverði. Þá ertu búinn að tapa 1 milljón á framkvæmdum. Það hefði verið mun betra að selja eignina á lægra verði og losna við allt vesenið og raskið sem því fylgir þar sem kaupendum gæti fundist nýja baðið forljótt, þau hefðu viljað halda baðkarinu en ekki fá sturtu þar sem þau eru með 2 lítil börn sem vilja fara í bað.
Síðan er það Pandoruboxið. Hvað ef það kemur í ljós þegar þú byrjar að taka baðið í gegn að lagnirnar eru komnar á tíma þá þarf að endurnýja þær í leiðinni og ef þú ert á jarðhæð þá myndi ég alltaf mæla með því að láta mynda skolpið þar sem það er ekkert vit í því að taka baðið í gegn ef það þarf svo að brjóta allt upp eftir 3 ár til að fara í skolpið. Kaupendur eru yfirleitt ekki tilbúnir að borga miklu hærra verð þó að það sé búið að endurnýja skolpið og lagnir, það er meira talið sem kostur að hafa þetta í lagi.
Ég ráðlegg því alltaf að selja eignina eins og er hún er því það eru margir kaupendur sem vilja eign sem þarf að taka í gegn og gera að sinni. Því hvar ætlar þú að draga mörkin. Ef þú tekur gólfefnið þá væri gott að taka hurðarnar líka, þá myndi nú fríska upp á hana að heilmála hana í leiðinni og þegar það er komið þá er svo áberandi hvað skáparnir eru orðnir ljótir. Það er miklu ódýrara fyrir seljandann og skemmtilegra fyrir kaupandann að fá að gera eignina að sinni þannig að meginreglan er þú færð aldrei til baka allan kostnaðinn við framkvæmdirnar og hvers vegna viltu eyða 10 M til að selja eignina á 7 M hærra verði?
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402